135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

þorskeldi.

113. mál
[13:09]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég er sammála hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur og hæstv. sjávarútvegsráðherra. Við erum nú í þeirri stöðu í þorskeldinu á Íslandi að tími er kominn til þess að byggja á þeim árangri sem náðst hefur með því að skala upp það eldi sem þegar er í gangi. Það hefur gengið býsna vel. Hlutverk ríkisvaldsins er fyrst og fremst að sinna rannsóknum, bæði hagnýtum rannsóknum og grunnrannsóknum, á þessu sviði. Það er það sem ríkisstjórnin hefur einsett sér að gera til að reyna að leiða þessa ágætu atvinnugrein áfram.

Hv. þingmaður kemur fram með tillögu um eins konar ríkisseiðastöð. Ég veit ekki hvort það er góð hugmynd en það er sjálfsagt að skoða hana eins og aðrar hugmyndir. Það sem skiptir mestu máli er að ríkið sinni rannsóknahlutverki sínu og ég veit að sterk áform eru um að gera það.