135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

þorskeldi.

113. mál
[13:11]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég er ánægð með svör hæstv. sjávarútvegsráðherra, mér finnst hann hafa sömu sýn á þessi mál og ég, að þarna geti möguleikarnir verið miklir en engu að síður sé full ástæða til þess að fara ekki út í gullgröft heldur vinna skynsamlega úr hlutunum. Ég tel það af hinu góða að hann hafi þegar stofnað til starfshóps. Auðvitað þarf þetta allt að vinnast með greininni og ég er ekki að tala um að taka fram fyrir hendurnar á nokkrum manni. Ég orðaði það svo í ræðu minni áðan hvort til greina kæmi að standa með fyrirtækjunum að seiðaeldisstöð. Ef fyrirtækin þurfa ekki á ríkinu að halda í þeim efnum er það náttúrlega bara enn betra en hugsanlega hefði það getað orðið til þess að stjórnvöld sýndu lit og sýndu að þau stæðu með greininni.

Það sem gert hefur verið fram til þessa er náttúrlega allt til þess að hjálpa því að náðst hefur út úr því þó nokkuð mikil reynsla og unnið er að kynbótum sem skiptir náttúrlega líka mjög miklu máli. Það þarf að reyna að vinna þannig úr hlutunum að ekki taki allt of langan tíma að ala seiði til slátrunar, það sparar mikið að tíminn sé eins stuttur og mögulegt er.

Ég vil líka lýsa ánægju með hæstv. iðnaðarráðherra og orð hans hér. Ég held að þetta sé í býsna góðum höndum hjá ríkisstjórninni miðað við ýmis önnur mál. Ég hef fulla trú á að haldið verði vel á þessum málum en mun að sjálfsögðu fylgjast vel með.