135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

þorskeldi.

113. mál
[13:13]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er gaman að hv. þingmaður er í þessum jákvæða gír, ég man svo vel eftir henni í þeim gír í stjórnarsamstarfinu sem við áttum með farsælum hætti í tólf ár. Ég vil fagna þeirri umræðu sem farið hefur fram um þorskeldismálin. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að ég held að þetta sé atvinnugrein sem við hljótum að horfa mjög til. Við skulum hins vegar gera okkur grein fyrir því að mörg ljón kunna að vera í veginum. Við þekkjum það af biturri reynslu að eldið er aldrei mjög einfaldur hlutur.

Við vitum það hins vegar að aðrar þjóðir horfa mjög til þess. Norðmenn horfa mjög til þorskeldis, Skotar sömuleiðis og við sem þorskframleiðsluþjóð verðum líka að hafa vakandi auga með því að aðrar þjóðir nái ekki forskoti í þessum efnum. Miklu máli skiptir að við höfum náð heilmiklum árangri, bæði á eldissviðinu og á kynbótasviðinu, og komið hefur fram að markaðurinn kann mjög vel að meta þær afurðir sem unnar eru úr þessum eldisþorski. Þetta eru allt saman jákvæðar vísbendingar.

Við vitum líka að áhugasöm fyrirtæki í sjávarútvegi hafa staðið fyrir þessum tilraunum okkar og þessari framleiðslu. Í Noregi eru það fyrst og fremst fjárfestar sem hafa komið að eldismálum en ekki fyrirtæki úr sjávarútvegi. Ég held því að á margan hátt sé líka í því falið ákveðið forskot vegna þess að þekkingin er til staðar hjá okkur.

Að öðru leyti vil ég segja að ég þakka kærlega fyrir þær góðu viðtökur sem málið hefur fengið. Ég bind sjálfur vonir við að við fáum skynsamlegar og raunhæfar tillögur út úr vinnu þeirrar nefndar sem ég hef ákveðið að skipa. Sú nefnd verður skipuð fulltrúum bæði úr atvinnulífinu og af hálfu hins opinbera, þar með talið fólki sem hefur mikla þekkingu á hinu vísindalega sviði.