135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

veiðar í flottroll.

153. mál
[13:23]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Herdísi Þórðardóttur fyrir þessa ágætu fyrirspurn og óska henni til hamingju með fyrstu ræðuna sína á þingi.

Ég tek undir þau sjónarmið sem hv. þingmaður færir hér fram varðandi flottrollsveiðar. Ef ég man rétt þá eru þær ekki heimilaðar, ég man ekki betur en þær séu í heild sinni, a.m.k. hvað kolmunna varðar og gott ef ekki líka loðnu, á undanþágu sem tilraunaveiðar. Þegar menn eru farnir að veita undanþágu eða takmarka tilraunaveiðar á flottrolli eins og hæstv. ráðherra lýsti að þeir mundu gera þá eru menn að mínu viti komnir töluvert mikið út á villigötur. Þessar veiðar voru að mig minnir heimilaðar í tilraunaskyni og eru enn í gangi í tilraunaskyni. Það er ekki bara skemmdin á lífríkinu eða hættan (Forseti hringir.) á því heldur líka sá gríðarlegi meðafli sem talið er að komi í flottroll og hvergi er reiknað með. Það er of mikið órannsakað í þessum efnum til að náttúran fái ekki að njóta vafans.