135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

skýrsla nefndar um flutningskostnað og jöfnun flutningskostnaðar á landsbyggðinni.

84. mál
[13:37]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra er stoltur af þeim 150 millj. kr. sem eiga að fara til Vestfirðinga til þess að lækka flutningskostnað þar. Ég óska Vestfirðingum til hamingju með það.

En ég vil benda hæstv. ráðherra á að fleiri landsvæði á Íslandi glíma við sams konar vandamál og Vestfirðir. Hæstv. ráðherra rakti það áðan að flutningskostnaður á Þórshöfn er 45% hærri heldur en á Ísafjörð. Samt fer ríkisstjórnin í sértækar aðgerðir gagnvart Vestfirðingum en ekki gagnvart norðausturhorni landsins. Síðan stendur hæstv. ráðherra að því að leggja niður Flutningsjöfnunarsjóð á eldsneyti sem mun þýða 125 millj. kr. hærri eldsneytiskostnað fyrir Sunnlendinga, Austfirðinga, Norðurland vestra og Vesturland.

Hæstv. forseti getur verið stoltur af verkum ríkisstjórnarinnar í þessum efnum eða hitt þó heldur. Hæstv. ráðherra hefur snúist þvert á (Forseti hringir.) fyrri ummæli og nú er verið að hækka flutningskostnað á þorra landsbyggðarinnar, því miður. Það er ekki (Forseti hringir.) til þess að hrópa húrra yfir.