135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

atvinnuleyfi fyrir erlenda sérfræðinga.

135. mál
[14:12]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég get svarað spurningu hv. þm. Guðfinnu S. Bjarnadóttur játandi. Mér er kunnugt um þau sjónarmið sem sett hafði verið fram af hálfu forsjármanna íslensks atvinnulífs um mikilvægi þess að stjórnvöld komi til móts við aukna kröfu fyrirtækja sem starfa hér á landi um starfsfólk með sérfræðimenntun. Mér er einnig kunnugt um að oft og tíðum telja forsvarsmenn fyrirtækja sig ekki geta fengið starfsfólk með hentuga sérfræðimenntun innan Evrópska efnahagssvæðisins og telja sig því tilneydda að leita út fyrir svæðið eftir hæfu starfsfólki.

Ég tek undir það að slíkt geti verið nauðsynlegt til að styrkja starfsemi þessara fyrirtækja svo þau geti m.a. staðist samkeppni erlendis frá sem er að sjálfsögðu þýðingarmikið svo að tryggja megi áframhaldandi velgengni í íslensku efnahagslífi. Þessi krafa um sérfræðinga er ekki einstök fyrir íslenskan vinnumarkað heldur virðist það sama vera upp á teningnum hjá öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins. Mikil þörf fyrir sérfræðimenntun hefur jafnframt verið á dagskrá Evrópusambandsins um nokkurt skeið og eru menn sérstaklega farnir að huga að þeim málum á hinum Norðurlöndunum. Þykir ljóst að Evrópa verði að kalla eftir sérfræðingum annars staðar frá þegar fram líða stundir ef takast eigi að halda við hagvexti á svæðinu.

Á síðustu mánuðum gaf framkvæmdastjórn Evrópusambandsins út nýja tillögu um svokallað blákortakerfi fyrir sérfræðimenntaða innflytjendur. Það kerfi á að veita sérfræðimenntuðum ríkisborgurum eða ríkja utan sambandsins rétt til tiltekinna félagslegra réttinda komi þeir til starfa í ríkjum innan sambandsins. Þessari tillögu er einkum ætlað að auka líkur á að ríkisborgarar ríkja utan Evrópusambandsins sem hafa sérfræðimenntun vilji koma til starfa í Evrópu en að mínu mati er þetta að sjálfsögðu alltaf spurningin um samkeppni um hæfasta fólkið hvaðan sem það kemur úr heiminum.

Í tilvikum þegar liggur fyrir að sótt er um atvinnuleyfi vegna starfsfólks með ákveðna sérfræðimenntun á tilteknu sviði, frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins hefur Vinnumálastofnun leitast við að hraða afgreiðsluferli stofnunarinnar og veitt slík leyfi enda ljóst að slík fagþekking sem um er að ræða verður ekki fengin annars staðar frá og launa- og ráðningarkjör bera þess vitni að um sérfræðingastarf er að ræða.

Ég geri mér ljóst að þó að reynt hafi verið eins og unnt er miðað við núverandi lagaumhverfi að greiða leið ríkisborgara ríkja utan svæðisins í störf hér á landi sem krefjast sérfræðimenntunar er mikilvægt að lögin verði gagnsæ að þessu leyti. Í félagsmálaráðuneytinu hafa þessi mál því verið skoðuð sérstaklega að undanförnu í samvinnu við dómsmálaráðuneytið og samtök aðila vinnumarkaðarins þar sem menn eru sammála um að finna þurfi leiðir til að mæta þessum þörfum íslensks atvinnulífs. Ég geri ráð fyrir að leggja fram tillögu að lagabreytingu fyrir þingið á næstu vikum þar sem tekið verður á þessum málum.