135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

framhaldsskóli við utanverðan Eyjafjörð.

157. mál
[15:01]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er algjör tímaskekkja að allir nemendur frá utanverðum Eyjafirði að vestan, og þar með frá þéttbýlisstöðunum, kjörnunum stóru, Siglufirði, Ólafsfirði og Dalvík, skuli þurfa að sækja framhaldsnám út fyrir sína heimabyggð. Þarna er að minnsta kosti 4–5 þúsund manna upptökusvæði sem á að geta fóðrað myndarlegan framhaldsskóla, ekki síður en t.d. nú er risinn á vestanverðu Snæfellsnesi. Má ég þá minna á að áform um framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð eru, ef eitthvað er, eldri en þau áform, þannig að ég get nú ekki tekið undir að þetta hafi gengið sérstaklega hratt.

Ég held að staðsetning í Ólafsfirði, sem er miðsvæðis, sé eðlileg en það þarf að huga að ýmsu í tengslum við það, ekki bara að byggingarmálum heldur líka samgöngubótum og tryggja ekki síst öryggi samgangna hvað varðar snjóflóðahættu o.fl. Síðast en ekki síst þarf undirbúningur að vera mjög vandaður. Það er mjög mikilvægt að hægt sé að kynna skólann í efstu bekkjum grunnskóla árinu áður en hann fer af stað. Það má engan tíma missa til þess að taka hinar endanlegu ákvarðanir og ráða fyrsta starfsfólkið og hefja markvissan undirbúning.