135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

íslenska friðargæslan.

74. mál
[15:24]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að fagna því endurmati sem fram hefur farið í utanríkisráðuneytinu á síðustu mánuðum á friðargæsluverkefnum. Ég tel mjög mikilvægt að fara yfir þau á þeim grundvelli hvernig þau samræmist þeirri stefnu sem mörkuð hefur verið í ljósi nýrra laga og að það sé algjörlega skýrt að um verkefni sem samrýmast þessu borgaralega markmiði sé að ræða. Þau verkefni geta oft verið innan ramma liðs frá Atlantshafsbandalaginu. Fyrir því eru mörg dæmi og mörg dæmi eru um að við höfum lagt til lið sem mikið hefur munað um í samstarfi okkar innan Atlantshafsbandalagsins. Ég vil minna á hjúkrunarlið sem var lykilatriði þess að vel gengi að koma á friði í Bosníu á sínum tíma.

Ég vil því fagna þessari stefnubreytingu.