135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

stýrivextir Seðlabankans og stjórn efnahagsmála.

[15:36]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Þetta var um margt athyglisverð ræða hjá hv. málshefjanda sem sat hér í ríkisstjórn þar til í maímánuði sl. ásamt þeim sem hér stendur. Minnist ég þess ekki að hann hafi gert verulegan ágreining um efnahagsstefnu þeirrar ríkisstjórnar þó að hann hafi sagt í umræðum um stefnuræðuna í vor, hálfum mánuði eftir að hann hvarf úr ríkisstjórn, að ríkisstjórnin stefndi sofandi og fljótandi að feigðarósi í efnahagsmálum. Það þótti mér undarlega mælt.

Hv. þingmaður kom víða við í ræðu sinni. Hann lét þess m.a. getið að kjarasamningar væru lausir. Það er vissulega rétt og það er í sjálfu sér ekki efnahagsvandamál. Núverandi ríkisstjórn hefur sett á laggirnar sérstakan samráðsvettvang, hugsanlega eitthvað í ætt við það sem hv. þingmaður spurði um undir lok ræðu sinnar, þar sem ætlunin er að ræða sameiginlega með aðilum vinnumarkaðarins, sveitarfélögunum og fleiri aðilum í þjóðfélaginu efnahags-, kjara- og félagsmál. Þegar hefur verið haldinn einn slíkur fundur á þessu ári.

Nei, virðulegi forseti, það var breytt um fyrirkomulag í peningamálum hér vorið 2001. Frá þeim tíma hefur Seðlabankinn haft sjálfstæði til að taka sínar vaxtaákvarðanir og um það fyrirkomulag hefur lítið verið deilt svo að mér sé kunnugt um. Ég þekki fáa sem vilja hverfa til baka til þess tíma þegar ríkisstjórnin réð vöxtunum í landinu og ákvað fyrir hönd bankanna hvað þeir mættu taka í vexti. Þó kann að vera að það sé einn og einn maður í Framsóknarflokknum sem sakni þess tíma.

Seðlabankinn tekur sínar eigin ákvarðanir og byggir þær á því faglega mati sem sérfræðingar hans leggja bankastjórninni til. Eina kerfið sem gæti komið í staðinn fyrir þetta er aðild að Evrópusambandinu og upptaka evrunnar en ég hef ekki skilið hv. þingmann þannig að hann sé talsmaður þess (Gripið fram í.) og það er ég ekki heldur. Ef við erum að tala um fyrirkomulag peningamálanna er það þetta tvennt sem um er að tefla, annaðhvort kost sem ekki er raunverulegur og nýtur ekki stuðnings, þ.e. að ganga í Evrópusambandið og taka upp evruna, eða núverandi fyrirkomulag með e.t.v. einhverjum smávægilegum lagfæringum eða breytingum. Þetta eru kostirnir í stöðunni en síðan geta menn endalaust deilt um einstakar ákvarðanir sem teknar eru innan ramma þess fyrirkomulags sem við lýði er.

Margt hefur gerst í þjóðfélaginu, það er vissulega rétt hjá hv. þingmanni, og flest af því hefur verið til góðs. Það hefur verið mikil uppsveifla, mikill uppgangur, miklar framfarir, mikil kjarabót fyrir allan almenning í landinu á undanförnum árum. Það hefur líka hrikt í vegna þess að margt hefur verið að gerast samtímis. Stóriðjuframkvæmdir fyrir austan sem við hv. þingmaður studdum báðir af alefli og síðan margs konar aðrar breytingar í þjóðfélaginu sem því miður, eftir á að hyggja, voru kannski ekki allar rétt hugsaðar eða rétt tímasettar. Þingmaðurinn nefndi sérstaklega 70% hækkun á íbúðaverði. Skyldi geta verið að ákvarðanir sem teknar voru í upphafi síðasta kjörtímabils varðandi íbúðalán á markaði hafi eitthvað með það að gera? Ég hygg að svo sé. Og ég hygg að við sameiginlega og aðrir í þeirri ríkisstjórn höfum verið of fljót á okkur hvað það varðar að hækka lán Íbúðalánasjóðs og þurfa síðan að mæta samkeppninni sem kom frá bankakerfinu og var vissulega ekki til heilla í þessu máli.

Nýja peningastjórnarkerfið frá 2001 hefur gefið góða raun í aðalatriðum að því er ég tel. Menn geta deilt þar um einstakar ákvarðanir. Ég hef sagt að ég teldi nýjustu vaxtaákvörðun Seðlabankans ekki heppilega með tilliti til kjarasamninganna sem fram undan eru. Ég geri frekar ráð fyrir því að málshefjandi sé sammála mér um það. En hagstjórn er meira en bara að ýta á takka, það þarf að meta af nákvæmni og reyna að fylgjast með því sem er undirliggjandi að gerast í hagkerfinu. Það er athyglisvert, eins og ég nefndi í umræðum um daginn, hvað hinar fjölmörgu efnahagsspár sem gerðar eru í landinu eru á köflum misvísandi.

Ég saknaði þess í ræðu þingmannsins að hann kæmi með tillögur eða úrræði önnur en þau sem hann er óánægður með en ég verð væntanlega að bíða seinni ræðu hans (Forseti hringir.) til að þær tillögur hans sjái dagsins ljós.