135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

stýrivextir Seðlabankans og stjórn efnahagsmála.

[15:51]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Það kveður að vissu leyti við kunnuglegan tón í þessari umræðu þótt sumir ræðumennirnir séu í öðru hlutverki en þeir voru áður. Við búum enn við það að vextir Seðlabankans eru háir og þeir fara hækkandi. Menn spyrja: Hvað annað er hægt að gera til að halda aftur af hagvextinum ef hann er vandamálið eða halda aftur af verðbólgunni sem vandamáli?

Í hinni klassísku umræðu og í þessari klassísku hagfræði er hitt tækið, ríkisfjármálin, og það er auðvitað það tæki sem liggur hjá okkur á hv. Alþingi. Margir velta fyrir sér hvort nóg sé að gert í þeim efnum og það er auðvitað sjálfsagt fyrir okkur að skoða það. Það hefur svolítið verið í umræðunni að fjárfesting hins opinbera hafi hækkað að undanförnu og vissulega er það rétt að hún hefur hækkað hjá hinu opinbera að undanförnu en þó jókst hún nánast ekkert á milli áranna 2005 og 2006 og var þá helmingurinn af því sem hún hefur hæst orðið á síðustu árum. Eflaust má því færa fyrir því rök að framlag ríkisfjármálanna til að halda aftur af verðbólgunni sé síst minna en framlag Seðlabankans hefur verið.