135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

stýrivextir Seðlabankans og stjórn efnahagsmála.

[15:53]
Hlusta

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni sem hér talaði, ríkisstjórnin sefur þyrnirósarsvefni í efnahagsmálum og seðlabankastjóri er greinilega ekki prinsinn sem hún hefur beðið eftir að veki sig af þeim svefni. Við sjáum það hreinlega á hagspá Seðlabankans og reyndar líka hagspá fjármálaráðuneytisins að þær skera sig frá hagspám viðskiptabankanna enda ekki gert ráð fyrir stóriðjuframkvæmdum í þessum spám. Það sem skilur á milli er að í bankaspánum veðja menn á áframhaldandi stóriðjuæði ríkisstjórnarinnar og að hér verði áfram falskur hagvöxtur tekinn að láni, áframhaldandi þensla. Ég spyr: Ætla menn virkilega að halda áfram slíku æði og það jafnvel hér í Helguvík, í næsta nágrenni höfuðborgarinnar, á mesta þenslusvæðinu? Ætla menn að halda áfram að deyfa sársaukann með verkjalyfi í stað þess að leyfa hagkerfinu að jafna sig og ná eðlilegu jafnvægi?

Ætla menn að halda áfram að skapa tvö hagkerfi, annað fyrir höfuðborgarsvæðið og hitt fyrir landsbyggðina? Á sama tíma og þessi þensla heldur áfram, Seðlabankinn hækkar vexti og krónan styrkist, blæðir landsbyggðinni út og sjávarútveginum úti á landi þá sérstaklega. Á sama tíma og vextir eru hækkaðir eykst greiðslubyrði almennings sem situr uppi með íbúðalán frá bönkunum. Eins og hv. málshefjandi benti á hafa þessir vextir nánast tvöfaldast, farið úr 4,15% í 7,15% á þremur árum.

Ætlar þessi ríkisstjórn kannski líka með aðgerðaleysi sínu að stuðla að því að hér verði ekki aðeins eitt hagkerfi fyrir höfuðborg og annað fyrir landsbyggð, heldur líka að hér verði eitt hagkerfi fyrir almenning, sem ekki þekkir rétta fólkið og tekur lánin sín í íslenskum krónum, og annað fyrir þá sem hafa réttu tengslin og geta tekið lán í erlendri mynt með erlendu vaxtastigi?

Ég held að það sé kominn tími til að ríkisstjórnin sýni lit, sendi skýr skilaboð og afboði stóriðjuframkvæmdir eins og gefin voru fyrirheit um í aðdraganda kosninga af öðrum stjórnarflokknum og tryggi að hér haldi ekki allt áfram í stjórnlausri þenslu og vaxtahækkunum.