135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

stýrivextir Seðlabankans og stjórn efnahagsmála.

[15:57]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Þegar stýrivextirnir voru 9,5% sagði framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Vilhjálmur Egilsson, eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Frekari hækkun vaxta myndi vissulega leiða til enn þá hærra gengis og beina eftirspurn enn frekar út úr hagkerfinu og hamla gegn verðhækkunum innan lands. En áhættan gagnvart fyrirtækjum í útflutnings- og samkeppnisgreinum er líka farin að verða afar mikil og spurning hvort skynsamlegt sé að tefla tæpar á það vað.“

Þetta var sagt í september 2005 þegar stýrivextir Seðlabankans voru 9,5%. Í dag eru þeir 13,75% og þannig háttar til, miðað við það sem hæstv. ráðherrar sem hér hafa komið upp hafa allir sagt, að þetta kom þeim gjörsamlega á óvart. Grunnatriðin í efnahagsstefnu þjóðarinnar komu þeim gjörsamlega á óvart.

Þessir háu stýrivextir, var sagt, eru orðnir vandamál í sjálfu sér. Síðasta hækkunin kom öllum á óvart og það er vandséð hvað réði þessari vaxtaákvörðun Seðlabankans.

Ég tók eftir þessum orðum í ummælum hæstv. utanríkisráðherra áðan: Nú eru vextirnir farnir að bíta, eins og það væri eitthvert keppikefli. Og gagnvart hverjum eru þeir farnir að bíta? Þeir eru farnir að bíta gegn litla manninum í þjóðfélaginu, ekki þeim sem leika sér á gjaldeyrismörkuðunum og nýta sér það hagræði að geta farið á milli gjaldmiðla eftir því hvað hentar hverju sinni. Þetta bitnar á litla manninum í þjóðfélaginu. Og hæstv. forsætisráðherra segir: Eina kerfið sem getur komið í staðinn fyrir hávaxtastefnuna er að taka upp evru og ganga í Evrópusambandið. Eru það virkilega einu valkostirnir sem við höfum? Er það það sem ríkisstjórnin stefnir þá leynt og ljóst að?