135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:08]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er einhver misskilningur á ferðinni af hálfu hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur vegna þess að engar samningaviðræður af þessu tagi eru í gangi. Samningaviðræðurnar núna snúast um að ná öllum að þessu borði, að ná að búa til alþjóðlegt samkomulag sem skuldbindi þjóðir heims, ekki bara sumar heldur allar og ekki síst þær sem mest menga. Það er það sem skiptir mestu máli á þessu stigi, að þetta náist fram. Um það eru t.d. allar þjóðir Norðurlandanna sammála, að því takmarki þurfi að ná í Kaupmannahöfn árið 2009. Það eru samningsmarkmiðin á þessu stigi fyrir þjóðir heims að ná þessu fram.

Síðan geta menn, eins og ég sagði, virðulegur forseti, velt því fyrir sér hvernig vinna eigi úr málinu en á þessu stigi snýst það um að ná fram alþjóðlegri bindandi niðurstöðu í málinu.