135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:25]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður gerði að umtalsefni að íslensk stjórnvöld hefðu glatað tækifæri til að endurmeta varnarviðbúnað frá grunni í kjölfar breyttra aðstæðna. Því er þveröfugt farið. Hv. þingmaður nefndi kostnaðarliði sem fallið hafa á íslenska ríkið vegna brottfarar varnarliðsins. Það er alveg ljóst að viðbúnaður varnarliðsins var með tilteknum hætti og endurskipulagning á þessum verkefnum stendur yfir. Það er líka algjörlega ljóst, eins og fram kom í ræðu hæstv. utanríkisráðherra, að ætlunin er að nýta það tækifæri sem nú er, það lag sem nú er til að byggja nýja og annars konar samstöðu um markmið í öryggis- og varnarmálum landsins.

Hv. þingmaður talar hér fyrir því „demilitarisera“ landið og virðist þar vera að tala fyrir úrsögn úr Atlantshafsbandalaginu. Þar held ég hins vegar að skilji milli hans og meiri hluta þingheims í þessu máli. Ég held að þvert á móti séu öll rök fyrir því að við byggjum framtíðaröryggis- og varnarviðbúnað okkar á grundvelli aðildar að Atlantshafsbandalaginu en það hefur sýnt sig að það er að þróast mjög jákvætt yfir í að verða öryggisbandalag. Hv. þingmaður nefndi hér afmarkað tilvik til að kasta rýrð á það hlutverk hér áðan. Ég held að við ættum líka að horfa til þess hvernig það varð hlutverk Atlantshafsbandalagsins að binda enda á þjóðarmorðin í Bosníu og hvernig það varð aftur hlutskipti Atlantshafsbandalagsins að koma í veg fyrir sams konar þjóðarmorð í Kosovo.