135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:58]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir yfirgripsmikla ræðu í upphafi umræðunnar og get tekið undir margt af því sem þar kom fram. Eitt af því er að hnattvæðingin, sem hefur verið mjög áþreifanleg síðustu árin og heldur áfram með vaxandi hraða, hefur áhrif á þjóðlífið á mörgum sviðum sem menn þurfa að aðlagast. Hún leiðir af sér breytingar sem menn hafa kannski ekki séð fyrir fyrir nokkrum áratugum.

Helstu einkenni hinna hnattrænu áhrifa eru auðvitað loftslagsbreytingar og umhverfismál. Fyrir utan loftslagsbreytingarnar er rætt um nýtingu fiskstofna í hafinu, nýtingu hafsbotnsins og þess sem undir honum er. Allt þetta kallar á alþjóðlega samninga. Menn komast lítið áfram á eigin spýtur og þörfin fyrir að starfa á alþjóðlega vísu í samkomulagi við aðrar þjóðir verður æ ríkari eftir því sem þeir málaflokkar verða þýðingarmeiri. Hver og ein þjóð hefur minni tök á að stjórna því fyrir sig.

Mér hefur fundist vægi umhverfismála fara hraðvaxandi á síðustu árum. Þau verða æ alþjóðlegri í eðli sínu eins og loftslagsmálin eru skýrasta dæmið um en þau mál snerta okkur líka á sviði innanlandsmála á flestum sviðum. Ef til vill er tímabært að gera umhverfismálunum verðug skil í þingsölum til samræmis við aukna þýðingu þess málaflokks með því að efna til sjálfstæðrar umræðu um umhverfismál með skýrslu eins og flutt er um utanríkismál í dag. Ég held að góður svipur væri á því. Það væri gott verkefni fyrir Alþingi og ríkisstjórn að efna til slíkrar umræðu með sambærilegum hætti.

Um loftslagsbreytingarnar þurfum við ekki mikið að segja umfram það sem komið hefur fram síðustu daga í umræðum af hálfu okkar frjálslyndra. Við lítum á þetta sem hnattrænt mál og leitum að lausnum á loftslagsbreytingunum út frá því. Framlag Íslands er þekkt í þeim efnum. Það var ekki samþykkt vegna þess að önnur ríki heimsins hefðu sérstakan áhuga á að gera Íslendingum sérstaklega til góða í þeim efnum til að fá þá til samstarfs. Ég hygg að hlutur Íslendinga einna mundi ekki skipta miklu máli í þeim efnum. Ástæðan fyrir því að samþykkt var það ákvæði sem stundum hefur verið nefnt íslenska ákvæðið er einfaldlega sú að það er skynsamlegt og hagkvæmt út frá alþjóðlegu sjónarhorni. Þess vegna eigum við að halda því á lofti og því munu aðrar þjóðir taka vel undir þann málflutning vegna þess að það hentar þeim ekki síður en okkur. Við eigum ekki að neita okkur um að nýta slík tækifæri jafnvel þó að það nýtist okkur betur en mörgum öðrum vegna þeirra auðlinda sem við höfum upp á að bjóða. Það er engin þörf á að ganga um berfættur í kufli í þessum efnum ef aðrir kostir bjóðast og eru jafngóðir eða betri í alþjóðlegum skilningi.

Hnattvæðingunni fylgja breytingar á mörgum sviðum. Fólk flytur meira á milli landa en áður var, ekki bara til varanlegrar búsetu heldur til skammtímadvalar eða nokkurra ára dvalar. Það er að verða æ algengara að fólk flytjist á milli landa frá sínu heimalandi til annars, vinni þar eða búi hluta af starfsævi sinni og flytji síðan aftur heim til heimalands síns eða enn annars lands um tíma áður en það flyst heim. Þessi þróun mun halda áfram og gerir að verkum að samsetningin á vinnumarkaði í hverju ríki breytist, hún verður fjölþjóðlegri. Við verðum auðvitað að taka mið af því. Þessi þróun er flestum þjóðum ef ekki öllum hagfelld. Það er kallað eftir vinnuafli í þeim löndum sem fólk flyst til. Við eigum að bregðast við því. Við nýtum okkur krafta erlendra starfsmanna. Þeir skapa tekjur og hagvöxt og þjóðin hefur ávinning af því vinnuafli en það má segja að hér á landi hafi menn verið fullseinir að bregðast við og stofna til þeirra útgjalda sem hljóta að fylgja, eins og þarf að vera til að sinna erlendum starfsmönnum með sómasamlegum hætti, t.d. að bjóða upp á íslenskukennslu og aðra þjónustu í skólum og víðar, sem nauðsynlegt er. Þar höfum við setið eftir og við þurfum að gera miklu betur í þeim efnum.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að halda fast um hagsmuni Íslendinga í samningum við aðrar þjóðir um réttindi hafsins hvort sem það eru fiskstofnar eða hafsbotnsréttindi, við Hatton-Rockall svæðið og við Svalbarða. Það er full ástæða til að leitast við að ná samkomulagi um þau réttindi við aðrar þjóðir sem í hlut eiga en það er líka ástæða til að halda fram okkar hlut af fullum myndugleik og muna eftir því að til er alþjóðlegur dómstóll í Haag sem hægt er að skjóta ágreiningsmálum til ef samstarfs- og viðræðuþjóðir reynast erfiðar í viðræðum og ekki líklegt að viðeigandi samningar náist. Við eigum ekki að gefa frá okkur tilkall til þessara réttinda nema fá mjög ásættanlega samninga um það.

Þær breytingar eru að verða, m.a. vegna loftslagsbreytinga, að flutningsleiðir munu fyrirsjáanlega breytast á næstu árum. Gas- og olíuflutningar munu líklega aukast hjá norðurheimskautinu til Norður-Ameríku og Evrópu. Það er að mörgu leyti áhyggjuefni fyrir okkur Íslendinga þó í því felist auðvitað líka ákveðin tækifæri. En áhyggjuefnið er vegna fiskimiðanna umhverfis landið. Hvert og eitt af þessum skipum sem kemur til með að sigla um þessar siglingaleiðir er það stórt að ef eitthvað misferst í þeim efnum verður skaðinn gríðarlegur og líklega óafturkræfur. Við eigum mikið undir því að tryggja sem best öryggi í slíkum siglingum þannig að við verðum ekki fyrir miklum skakkaföllum með fiskstofna okkar.

Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að ég hef dálitlar áhyggjur af þessu máli. Mér finnst að hagsmunirnir fyrir okkur í að vernda fiskimiðin og lífríki í hafinu umhverfis landið séu miklu meiri en þeir hagsmunir sem hugsanlega kunna að verða af því að hafa ávinning eða atvinnu af þessum flutningum. Ég er ekki hvatamaður að því að Íslendingar gangist á næstu árum fyrir því að láta rannsaka og hefja nýtingu á olíu á svokölluðu Drekasvæði. Ég held að það hlaupi ekki frá okkur það sem þar kann að vera í hafinu og efnahagsaðstæður hér á landi um þessar mundir og á komandi árum eru þannig að engin sérstök þörf er á að efna til mikillar atvinnustarfsemi ef þar fyndist olía. Það er sjálfsagt að rannsaka svæðið og kanna hvað þar kann að vera fyrir hendi en það er svo önnur ákvörðun hvort rjúka eigi í að nýta svæðið. Ég hygg að það gæti verið skynsamlegt að geyma það um einhvern tíma, a.m.k. þangað til við höfum aðgang að tækni og búnaði sem gerir það öruggt að ekki verði skaði af þó að einhver slys verði við þá starfsemi.

Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að taka upp mál sem nefnt hefur verið í þingsölum og víðar, að taka upp samninga við Grænlendinga og Dani fyrir þeirra hönd eftir atvikum um nýtingu á hafsvæðinu og fiskimiðum milli Íslands og Grænlands, um að íslensk fyrirtæki og íslenskar hafnir veiti Grænlendingum þjónustu eftir því sem þörf er á því staðreyndin er sú að Íslendingar eru næstu nágrannar Grænlendinga austan megin frá. Það eru tækifæri í því fyrir okkur Íslendinga að koma á fót samskiptum og viðskiptum á milli Íslendinga og Grænlendinga.

Varðandi þróunarsamvinnu tökum við eindregið undir áhersluna á hana. Íslendingar eiga í krafti auðs síns og velmegunar að leggja mikið af mörkum til að hjálpa öðrum þjóðum að komast áfram til betri efnahags. Við eigum að einbeita okkur að því, eins og kemur fram í ræðu hæstv. ráðherra, að hjálpa þróunarlöndum til sjálfshjálpar og horfa til menntunar og heilsugæslu, jafnréttis kynjanna og stuðla að sjálfbærri þróun. Þetta eru allt viðamikil viðfangsefni og við erum yrðum fullsæmd af því að leggja okkar lóð á vogarskálarnar til að ná fram framförum á þessum sviðum í viðkomandi löndum.

Varðandi friðargæsluna erum við ekki eins hrifnir af þeirri þróun sem orðið hefur á síðustu árum. Ég hygg að megi segja að hún hafi að sumu leyti verið án vitneskju, vitundar og samþykkis Alþingis í þá veru að koma upp hópum sem starfa undir herskipulagi og herstjórn, hafa heimild til að bera vopn og gera það eftir því sem þurfa þykir. Okkar afstaða er sú að Íslendingar eigi ekki að einbeita sér að þessum þætti í alþjóðastarfi. Friðargæsluliðar eru ekki að okkar mati það sem við eigum að leggja til heldur friðarliðar. Við leggjumst eindregið gegn því að þeir séu undir vopnum, undir herskipulagi og herstjórn. Það er skýr afstaða af okkar hálfu og við hvetjum til þess að ríkisstjórnin falli frá uppbyggingu á þessu sviði.

Ég spyr mig hvað muni gerast, sem væntanlega hlýtur að gerast fyrr eða síðar, ef íslenskur friðargæsluliði undir vopnum beitir þeim og skaðar mann eða fellir. Hvernig verður unnt að rannsaka það mál? Mun einhver gera það? Verður ákært í því og dæmt? Það segir í lögunum um íslensku friðargæsluna að þeir heyri undir íslensk lög í þessum efnum. En mér er til efs að ríkissaksóknari og ríkislögreglustjóri hafi möguleika á að rannsaka vettvang og atvik eins og þörf er á til að unnt sé að leggja mat á hvort eigi að gefa út ákæru og stefna fyrir dóm. Erum við þá komin í þá stöðu að Íslendingar hafi heimild til að bera vopn og beita þeim? Ég verð að segja, virðulegi forseti, að mér finnst það ekki skemmtileg tilhugsun að sú staða kunni að koma upp í reynd þótt ekki sé hún beinlínis skrifuð inn í lögin.

Varðandi framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna þá er það nokkuð samdóma afstaða okkar að við hvetjum ekki til þess. Við höfum ekki beitt okkur í að hvetja íslensk stjórnvöld til að sækja um setu í öryggisráðinu. Hins vegar hefur sú ákvörðun verið tekin og framboð er hafið af hálfu Íslendinga og stjórnvöld vinna að því að afla stuðnings við setu Íslendinga í ráðinu og ná kosningu á næsta ári. Við munum ekki tala gegn því framboði heldur fremur reyna þá að leggja stjórnvöldum lið í þeirri stefnu sem hefur verið mörkuð. Þótt við séum ekki sammála henni þá teljum við rétt að miða afstöðu okkar við það sem fyrir liggur og verður ekki breytt.

Fleira má segja, virðulegi forseti, sem ástæða er til að fara yfir í umræðunni um utanríkismál, svo sem stöðu Ratsjárstofnunar. Ég ætla ekki að blanda mér mikið í það að öðru leyti en því að ég legg áherslu á að sú stofnun gæti öryggis um land allt en ekki bara á einu svæði landsins og það endurspeglist í starfsmannahaldi og viðbúnaði þeirrar stofnunar þegar gengið verður frá lögum um hana og ráðningu starfsfólks til stofnunarinnar.