135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:13]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vildi vegna þess sem kom fram í ræðu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar varðandi samstarf við Grænlendinga, varðandi nýtingu hafsvæðisins á milli Grænlands og Íslands og þá umferð sem væntanleg er á komandi árum á þessu svæði, skipaumferð með olíu og gas frá Barentshafi og til Bandaríkjanna, upplýsa að auðvitað hafa Grænlendingar af þessu áhyggjur rétt eins og við. Grænlendingar hafa líkja áhyggjur af því að nú sækja stór skemmtiferðaskip til Grænlands sem þeir hafa lítinn viðbúnað til að mæta ef slys verða eða eitthvað gerist varðandi slíkar skipakomur.

Ég held að það sé mikið hagsmunamál fyrir okkur Íslendinga að eiga sem best og mest samstarf við Grænlendinga um nýtingu hafsvæðisins milli Austur-Grænlands og Vestfjarða. Ég tel að þar séu ýmsir möguleikar á samstarfi sem geti skipt báðar þjóðir miklu máli. Ég hef þess vegna þegar skrifað fyrir nokkru síðan Aleqa Hammond sem fer með utanríkismál fyrir grænlensku heimastjórnina. Ég hitti hana meðan ég var á þingi Norðurlandaráðs og hefur verið ákveðið að ég fari til Grænlands þegar tækifæri gefst til að ræða sameiginleg hagsmunamál landanna og reyna að finna leiðir til að þróa þau áfram. Það verður að segjast alveg eins og er að við höfum ekki sinnt þessu nógu vel, ekki ræktað nógu vel sambandið við þessa frændur okkar. Ég tel að full ástæða sé til þess og vil gjarnan beita mér í því að við eigum sem best og mest samstarf við nágranna okkar.