135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:15]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari yfirlýsingu hæstv. utanríkisráðherra og vonast til þess að af þessu verði árangur fyrr eða síðar. Það er mikilvægt að ná góðu sambandi við Grænlendinga í þessum efnum og í því felast líka mikil tækifæri fyrir okkur Íslendinga sem við eigum ekki að láta liggja ónotuð öllu lengur. Það hefur verið ýtt á þetta á undanförnum árum, að reyna að koma á betra sambandi við Grænlendinga til að koma á viðskiptum og samningum um nýtingu hafsins og fiskstofnanna og til að veita þeim þjónustu frá íslenskum höfnum. Ég vek athygli á því að vestfirskar hafnir liggja næst austurströnd Grænlands og þar er sá flugvöllur í Evrópu sem er næst Grænlandi og þangað geta Grænlendingar sótt þjónustu fyrr og nær sér en til Danmerkur eða annarra Evrópulanda. Það er því mikið að vinna í þeim efnum, virðulegi forseti, og ég vonast til að árangur verði af viðræðum utanríkisráðherra við viðeigandi aðila á komandi árum.

Ég vil svo undirstrika áhyggjur mínar af þessum miklu siglingum sem fyrirsjáanlegar verða einmitt í sundinu milli Íslands og Grænlands. Ég held að Íslendingar ættu að beita sér fyrir því að ná samningum um þær skipaleiðir og siglingaleiðir þannig að sem minnstar líkur verði á alvarlegum skaða ef eitthvað ber út af á þeirri leið. Við eigum eins og Grænlendingar mikið undir því að þessar siglingar verði óhappalausar, virðulegi forseti.