135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:04]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held einfaldlega að það sé hægt að gefa flestöllu atferli Íslendinga á alþjóðavettvangi undanfarin 50 ár einkunnina innihaldslaust brambolt og brölt frekar en öryggisráðsframboðinu.

Ég ætla ekkert að ræða um á hvaða forsendum stofnað var til framboðsins á sínum tíma en ég fullyrði að sú stefnumótun sem unnið er eftir núna sé mjög markviss og felist í því fyrst og fremst að vinna á jákvæðan hátt með fátækum eyþjóðum og sýna fordæmi Íslands.

Hv. þingmaður auglýsti eftir því í máli sínu áðan að við reyndum að breyta leikreglunum. Ef við ætlum ekki að sækjast eftir sæti í öryggisráðinu, hvar eigum við þá að breyta leikreglunum? Ég hef ekki orðið var við að flokkur hennar hafi mikinn áhuga á að breyta leikreglunum um innflutning á landbúnaðarvörum innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Ég hlýt því að spyrja: Hvar eigum við að breyta leikreglunum? Mér finnst hv. þingmaður í reynd vera að mæla fyrir því að við tökum okkur stöðu í sjálfskipuðu áhrifaleysi.

Það er þvert á móti í boði að sameina þetta tvennt, virka utanríkisstefnu og skýra siðferðislega sýn. Það erum við að reyna að gera núna og eftir því er mikil eftirspurn. Meðal fátækra eyþjóða, bæði í Karíbahafinu og Kyrrahafinu, er talað um að mjög mikilvægt sé að fá að sjá fordæmi Íslands sem er land sem hefur byggt upp öflugt velferðarkerfi og samt náð efnahagslegum framförum og hefur ekki farið að forskrift Alþjóðabankans. Þess vegna eigum við erindi í öryggisráðið.

Við höfum sýnt það með kosningahegðun okkar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna að við stöndum þar fyrir sjálfstæðri utanríkisstefnu og tökum þar stöðu með Norðurlöndunum í atkvæðagreiðslum. Þannig ætlum við að vinna áfram (Forseti hringir.) og þannig eigum við að vinna.