135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:00]
Hlusta

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Árni Páll nefnir eitt það svið þar sem við Íslendingar höfum mikið að gefa og mörgu að miðla, dýrmætri þekkingu á sviði jarðvarma. Það höfum við haft um árabil, það er ekkert nýtt. Það skiptir hins vegar öllu máli á hvaða forsendum það er gert og fyrir hvern. Er það fyrir gróðafyrirtækin til þess að hagnast eða til þess að byggja upp og hjálpa örlítið til við að byggja betri heim? Þar eru mismunandi átök í gangi. Það verður bara að segjast alveg eins og er.

Það væri sannarlega stór viðburður ef okkur tækist að snúa hinum stóru viðskiptaveldum sem byggja á mjög skýrum gróðaforsendum yfir í einhvers konar félagsleg apparöt. Það þarf sannarlega mikið að gerast til þess að svo verði. Við Íslendingar getum með þróunarsamvinnu og þróunarstarfi miðlað af jarðvarmaþekkingu okkar án þess að þar séu risafjárfestar sem ætla að græða á því.

Um þetta snýst málið. Á forsendum hverra farið er í verkefnin, hvað er gert, hverjir fá að eigna sér þekkinguna, hverjir fá að miðla henni og hverjir fá að græða á henni, heimamenn á eigin forsendum til að byggja upp samfélag sitt eða þeir sem fara með gróðann úr landi.