135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:17]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir ágæta umræðu um utanríkismál í dag. Hún var býsna yfirgripsmikil og spannaði allt frá einstökum starfsmannamálum til hnattvædds kapítalisma og farið var út um víðan völl. Það er eðlilegt að umræða af þessum toga geri það.

Ég vil einnig þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir svör við spurningum mínum. Hún komst vissulega ekki yfir að svara öllum enda kannski ekki við því að búast í takmörkuðum ræðutíma. Ég vil hnykkja á því sem ég spurði um varðandi sprengjuleit og sprengjueyðingu á flugvallarsvæðinu og ráðherra svaraði hvernig málinu væri háttað. Ég legg áherslu á að mikilvægt er að málinu sé hraðað, þ.e. þeirri leit og eyðingu sem þar þarf að fara fram. Um er að ræða svæði sem komið er í borgaraleg not, meðal annars sem skólasvæði, og slæmt að það sé nýtt ef einhver hætta stafar þar af ósprungnum sprengjum.

Varðandi Írak og orðaskiptin sem fram fóru milli hæstv. utanríkisráðherra og hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur verð ég hrósa hæstv. utanríkisráðherra fyrir afstöðuna sem hún tók í málinu. Ég tel fullkomlega eðlilegt að kalla starfsmanninn heim frá Írak með þeim hætti sem gert var, hann var bæði táknrænn og efnislegur. Mér fannst það rétt ákvörðun og vil að það komi fram í umræðunni.

Umræðan hefur einnig snúist talsvert um friðargæsluna í Afganistan og sýnist þar sitt hverjum. Hæstv. utanríkisráðherra orðaði það þannig að við þyrftum að sýna staðfestu, ákvörðun hefði verið tekin um þátttöku þar og við mættum ekki hopa af hólmi. Það er ef til vill rétt en ég minni á að einnig var talað um staðfestu og hinar staðföstu þjóðir í tengslum við Íraksstríðið. Ekki voru allir ánægðir með staðfestuna sem þá var höfð uppi, þar á meðal núverandi hæstv. utanríkisráðherra og flokkur hennar, Samfylkingin. Mikilvægt er að kanna hvort þátttaka okkar þar samræmist lögum um friðargæslu. Hæstv. utanríkisráðherra sagði í umræðum eða fyrirspurn fyrr í vikunni að hún teldi það samræmast lögum um friðargæslu. Um það eru augljóslega skiptar skoðanir og hefur hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon haldið hinu öndverða fram. Það er sérstakt mál að fá úr því skorið hvort svo er.

Ég vil að lokum fjalla stuttlega um stöðu flóttamanna. Ég vakti máls á henni í fyrri ræðu minni og hæstv. utanríkisráðherra svaraði fyrir sitt leyti og sagði meðal annars að mál hælisleitenda heyrðu undir dómsmálaráðuneytið. Ég vísa til áskorunar sem komið hefur frá fjölmörgum frjálsum félagasamtökum á Norðurlöndum til norrænna ríkisstjórna. Því hefur verið haldið fram að fólk sem flýr vopnuð átök fái sjaldnast vernd og hæli í okkar heimshluta og að Norðurlöndin standi sig ekki vel í þessu sambandi, þau hafi í raun verið að þrengja túlkun sína á skuldbindingum í þessu efni. Sérstaklega er nefnt að á undanförnum árum hafi Norðurlöndin meðal annars sent hælisleitendur til baka til Írak, til Sri Lanka og Afganistan og það hafi verið í bága við tilmæli Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Þetta hefur komið fram í greinum sem framkvæmdastjórar Mannréttindaskrifstofu Íslands, Rauða krossins og Íslandsdeildar Amnesty International hafa skrifað um efnið og beint máli sínu til íslenskra stjórnvalda. Þess vegna finnst mér nauðsynlegt að taka málið upp og mikilvægt að Íslendingar, og reyndar Norðurlöndin öll, standi sína plikt í þessu efni og gott betur. Allt of rík hefð hefur verið fyrir íhaldssemi þegar kemur að hælisleitendum, einnig hjá íslenskum stjórnvöldum. Ég batt vonir við að það mundi breytast með þátttöku Samfylkingarinnar, jafnaðarmanna, í ríkisstjórn.

Sjálfstæðisflokkurinn ræður að vísu dómsmálaráðuneytinu enn þá og hefur gert það allt of lengi. Það er því ef til vill ekki við því að búast að mikil breyting verði á afstöðu íslenskra stjórnvalda hvað þetta snertir. Ég áskil mér allan rétt til að fylgja málinu eftir á hv. Alþingi með öðrum hætti þótt síðar verði.

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir umræðuna sem hefur verið yfirgripsmikil og prýðileg þótt skoðanir um margvísleg grundvallaratriði í utanríkismálum séu augljóslega skiptar. Við erum ekki öll sammála um hvernig við eigum að halda á málum og hvert á að stefna. Það breytist kannski ekki við umræðu af þessum toga en rétt er að halda stjórnvöldum við efnið. Það munum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs leitast við að gera.