135. löggjafarþing — 22. fundur,  12. nóv. 2007.

stefna ríkisstjórnarinnar í stóriðjumálum.

[15:23]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Já, það er nú þannig að stjórn Landsvirkjunar hefur það verkefni með höndum að vega og meta hvernig hagsmunum fyrirtækisins er best háttað í það og það skiptið. Það er alveg rétt sem hér var bent á að formaður stjórnar Landsvirkjunar núna er afar hæfur maður úr Framsóknarflokknum. Stjórn fyrirtækisins komst samhljóða að þeirri niðurstöðu sem kynnt hefur verið. Hún er ósköp skýr og auðskiljanleg. Landsvirkjun ætlar ekki að selja nýjum orkufyrirtækjum, nýjum álfyrirtækjum, á suðvesturhorninu rafmagn að sinni og hyggst ekki hefja viðræður um það efni.

Landsvirkjun hefur ekki verið í viðræðum við Norðurál um að byggja álver í Helguvík og þess vegna hefur þessi ákvörðun engin áhrif á þær fyrirætlanir, hvorki af né á. Og álverið á Bakka við Húsavík er ekki á suðvesturhorninu. Það fellur heldur ekki undir þessa ákvörðun enda er það nokkur ár inni í framtíðinni hvort sem er. Þetta er alveg skýrt.

Ég tel að menn ættu að fagna því að fyrirtækið fái hærra verð fyrir orku sína en það hefur fengið út úr því að selja til álframleiðslu og ég tel að menn eigi að fagna því að fyrirtækið og þar með þjóðarbúið geti skotið nýjum stoðum undir starfsemi sína með því að færa út kvíarnar hvað varðar gagnamiðstöðvar sem sumir kalla netþjónabú eða kísilhreinsun fyrir sólarrafala.

Þetta er það sem núna er fram undan. Ég tel að önnur mál sem þessu tengjast séu vel viðráðanleg og hægt að vinna úr þeim í góðri samvinnu allra aðila sem hlut eiga að máli. Ég vona svo sannarlega að það eigi einnig við um álverið í Straumsvík sem er í eigu Alcans. (VS: Þannig að iðnaðarráðherra lúffaði.)