135. löggjafarþing — 22. fundur,  12. nóv. 2007.

tæknifrjóvgun.

183. mál
[16:50]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Herra forseti. Með því að vekja máls á rétti einhleypra kvenna til tæknifrjóvgunar, sem hv. þm. Þuríður Backman hafði áður gert, hef ég kveikt nokkuð í umræðu sem var kannski ekki á dagskrá í dag. Á dagskrá var umræða um fósturvísa.

Ég vil ekki að orð mín verði túlkuð á þann veg að ég telji að ganga eigi á rétt einstæðra kvenna en engu að síður þarf að flýta sér hægt. Huga þarf að réttindum barna til að eiga bæði föður og móður og óneitanlega er okkur sem teljumst til karlkynsins, og erum einhverra hluta vegna í minni hluta í þessum sal á þessum degi, umhugað um ... (REÁ: Það eru tveir þarna fyrir aftan þig.) — Já, ég sé ekki með hnakkanum — umhugað um að okkar hlutverki í keðjunni verði ekki alveg skákað út. Kannski hafa sjónarmið mín litast nokkuð af því.