135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

uppkaup á jörðum og verndun landbúnaðarlands.

[13:50]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Hér er ágæt umræða í gangi en ég held að ég verði að segja að sá boðskapur sem kom fram í ræðu hæstv. landbúnaðarráðherra áðan sé afar einhliða og jafnvel einfaldur. Mér fannst hæstv. ráðherra beinlínis gefa mér til kynna að hann áttaði sig ekki á þeim verðmætum sem honum hafa verið falin í því nýja ráðuneyti sem hann hefur nú umsjón með.

Það er ekki rétt að slá því föstu að það sé alltaf af hinu góða að lögbýlum fjölgi. Það skiptir máli hvers konar lögbýli við tölum um. Það skiptir líka máli að átta sig á því að hér erum við að tala um skipulagsmál öðru fremur. Við erum með ákvæði í skipulagslögum um að gæta eigi að því að sjálfbær þróun sé borin fyrir brjósti og sé eitt af því sem marki ákvarðanir um skipulag. Ef sjálfbær þróun er ekki einmitt það lögmál sem á að hafa til hliðsjónar og hafa að leiðarljósi í íslenskum landbúnaði erum við illa á vegi stödd.

Mér finnst rétt að benda hæstv. ráðherra á að í Bændablaðinu frá þriðjudeginum 9. október sl. er frásögn af málstofu sem Landbúnaðarháskóli Íslands hélt í byrjun mánaðarins. Þar er rætt við Salvöru Jónsdóttur skipulagsfræðing sem í þessari málstofu gerði að umræðuefni spurninguna: Hvernig er land notað á Íslandi? Hún bendir á að þar þurfum við að hafa ýmis sjónarmið til hliðsjónar, m.a. lýðheilsusjónarmið. Þess vegna segir hún að markaðnum einum sé ekki treystandi fyrir ákvörðunum um landnotkun þar sem ýmis heilbrigðisvandamál geti komið upp þegar bújarðir verða of stórar og verksmiðjuframleiðslan fer að láta á sér kræla.

Ég held að hæstv. landbúnaðarráðherra verði að átta sig á að til að tryggja gæði landbúnaðarlands og (Forseti hringir.) landbúnaðarins almennt, þurfum við að huga að því hvers konar landnýting er til staðar og tryggja það að stóreignamenn (Forseti hringir.) og stórgrósserar taki ekki of stóran hluta af góðu rekstrarlandi undir sínar prívat og persónulegu þarfir.