135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

uppkaup á jörðum og verndun landbúnaðarlands.

[13:57]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf):

Herra forseti. Þetta er ágæt umræða og ekki nema von að hún komi upp því að orðið hefur töluverð breyting í íslenskum landbúnaði hvað þetta varðar.

Það er eitt jákvætt sem þetta hefur haft í för með sér og það er að fólk sækist meira í að eignast jarðir. Það eru ekki bara auðmenn og við eigum alls ekki að tala um auðmenn sem einhverjar vondar manneskjur, það er bara misjafn sauður í því fé eins og öðru. Margir auðmenn sem kaupa jarðir leyfa fólki að hafa aðgang að þeim o.s.frv. (Gripið fram í.) Þannig að við skulum ekki gera …

Herra forseti. Hv. þm. Guðni Ágústsson gjammar svo fram í að ég fæ vart talað. Svo ég fái að halda máli mínu áfram þá vildi ég bara taka þetta fram.

Verð jarðanna hefur aukist og það hefur líka gert það að verkum að þeir bændur sem ekki hyggjast selja jarðir sínar hafa þá meiri möguleika til að fá lán út á þær og fara út í aðra starfsemi eða efla þá starfsemi sem þeir eru með fyrir. Það eru ákveðnir jákvæðir þættir í þessu öllu saman.

Hins vegar er líka mjög gott að við hugum að því og ríkið hugi að því að selja ekki mikið af þeim jörðum sem það á og halda frekar að sér höndum hvað það varðar svo við eigum þá jarðir til fyrir þá sem vilja fara út í búskap. Eins og staðan er í dag held ég að það sé ekki þannig að landbúnaður verði ekki drifinn vegna þess að jarðnæði skorti eða jarðir. Það er ekki svo.

Ég tek undir orð hv. þm. Bjarna Harðarsonar um að jarðir eiga að vera opnar (Forseti hringir.) almenningi þannig að menn geti notið íslenskrar náttúru í sátt við eigendur og guð og menn.