135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

almannavarnir.

190. mál
[14:35]
Hlusta

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni mjög tímabær breyting á lögum sem má segja að rammi inn þær gríðarlegu breytingar sem orðið hafa á þessum vettvangi á undanförnum árum. Eins og fram kom í framsögu dómsmálaráðherra er stærsta breytingin kannski sú að tengja allar almannavarnaaðgerðir við útvíkkun á daglegu starfi. Björgunarmiðstöðin Skógarhlíð leikur lykilhlutverk í þessu. Það varð stórkostleg breyting fyrir alla sem að þessum málum starfa þegar tókst að koma öllum viðbragðsaðilum saman á einn stað í eina stjórnstöð.

Áður voru stjórnstöðvarnar margar. Unnið var eftir mismunandi verklagi á hverjum stað og þegar skilgreint almannavarnaástand tók við þá tók við allt annað stjórnkerfi en menn áttu að starfa við þess utan. Kerfið var ósmurt. Fólk var óvant því að vinna í samræmingarstöð sem þá var staðsett á Lögreglustöðinni við Hverfisgötu. Á þeim tíma hafði þetta oft í för með sér heilmiklar tafir og erfiðleika við skipulagt viðbragð. Í þessu sambandi má nefna atburðina á Vestfjörðum 1995 þegar snjóflóðin riðu þar yfir, fyrst í Súðavík í janúar og svo á Flateyri í október sama ár. Þá má segja að að mörgu leyti hafi þurft fyrra óhappið til að þjálfa mannskapinn og gera hann vel viðbúinn því að starfa eftir hraðara skipulagi við björgunaraðgerðir á Flateyri.

Með því að færa þetta inn í eina stjórnstöð sem vinnur í hverri viku í ákveðnum samræmingarstöðvum við ýmsar mismunandi uppákomur víða um land þá erum við bæði með mannskap og kerfi sem er þjálfað og er síðan bara útvíkkað eftir þeirri starfsemi sem það þarf að takast á við á hverjum tíma. Inn í þá stjórnstöð koma þeir aðilar sem um er að ræða.

Þetta leysti af sérstakar stjórnstöðvar lögreglu, landhelgisgæslu, flugmálastjórnar, björgunarsveita og tilkynningarskyldu. Meira að segja var stjórnstöð vegna sjóslysa á tveimur stöðum. Það var í raun óskýrt hvor stjórnstöðin átti að fara með hlutverk á hverjum tíma. Menn horfðu kannski annars vegar á óhapp sem varð á ströndinni eða á hafinu næst ströndinni, eins og það var orðað í reglunum. Hins vegar voru óhöpp úti á sjó. Þá spurði maður sig að því, þegar um var að ræða aðgerðir: Hvenær verður sjór land og land sjór? Það er í raun dæmi um óhagræðið af því að vera á svo mörgum stöðum.

Skipulagið hefur líka vakið eftirtekt margra aðila, sérstaklega erlendra. Við höfum fengið marga í heimsókn til landsins í þeim tilgangi til að kynna sér starfsemina hjá okkur. Menn hafa lýst undrun sinni á því að tekist hafi að koma saman öllum þessum mismunandi viðbragðsaðilum í eina samræmingarstöð, eina sameiginlega stjórnstöð sem hefur með að gera sjó, land og loft.

Það var mikilvægt þegar Almannavarnir ríkisins voru á sínum tíma gerðar að sérstakri deild innan ríkislögreglustjóraembættisins. Áður voru þær sérstofnun sem hafði að mörgu leyti óljóst vald og ekki það skýra umboð sem þarf að liggja fyrir og er í raun tryggt í þessu lagafrumvarpi. Í nýja lagafrumvarpinu er yfirstjórn og ábyrgð skýr. Dómsmálaráðherra, sem æðsti yfirmaður, og ríkislögreglustjóri eru ábyrgir fyrir framkvæmd verkefna. Varðandi samvinnu við sveitarfélög og stofnanir ríkisins og þá sem að málum þurfa að koma er ríkislögreglustjóri ábyrgur. Hann gerir hættumat og sinnir eftirliti við gerð viðbragðsáætlana. Hann hefur með að gera samhæfingu viðbragðsaðila auk skipulags, þjálfunar og fræðslu á sviði almannavarna.

Það er vitað mál að ástand í almannavarnamálum hefur verið ákaflega mismunandi milli sveitarfélaga. Auðvitað eru aðstæður einnig mismunandi. Það er hægt að nefna marga staði þar sem hætta á náttúruhamförum eða öðrum stórum óhöppum er ekki mikil. Önnur liggja á miklu hætturíkari svæðum. Samt sem áður þurfum við að vera viðbúin því, hvar sem er um landið, að geta brugðist við stórum óhöppum. Aukningin í ferðaþjónustu sem orðið hefur hér á landi á undanförnum árum eykur þessa ábyrgð enn frekar vegna þess að á ferðinni eru náttúrlega bæði stór skip með mikinn fjölda farþega og fólksflutningabílar með marga innanborðs sem fara víða. Þetta mál tekur til margra þátta og við þurfum að vera alls staðar klár á því hvernig við ætlum að bregðast við og hvaða bjargir við höfum þegar til kastanna kemur. Það er rík eftirlitsskylda ríkislögreglustjóraembættis að fylgja þessu eftir og sinna undirbúningsþættinum, þjálfun og öðru slíku.

Samt sem áður er ekki dregið úr hlutverki og ábyrgð sveitarfélaga. Það er ekkert dregið úr henni í þessu frumvarpi nema síður sé. Það er á þeirra ábyrgð að undirbúa sig heima í héraði og aðkoma þeirra tryggir að tekið sé mið af aðstæðum á hverjum stað. Eins og ég sagði áðan var ekki hægt að búa til eitt einfalt skipulag fyrir allt landið eins og þetta var áður hjá okkur. Þá var almannavarnaástand skilgreint út frá tilteknum fjölda mögulegra slasaðra, það var miðað við ákveðinn fjölda. Ég held að það hafi verið 15, ef ég man rétt. Við getum velt fyrir okkur hvort 15 manna slys væri almannavarnaástand hér á höfuðborgarsvæðinu eða á Akureyri. En það er sannarlega almannavarnaástand á afskekktari stöðum.

Almannavarnanefndir verða skipaðar af sveitarfélögum og verkefni þeirra eru skýr og það er einnig skýrt hverjir skuli í þeim sitja. Það hefur ekki ekki verið alveg skýrt fram að þessu og ekki verið tryggt að allir þeir sem þar ættu í raun erindi hafi endilega verið í almannavarnanefnd. Til að mynda má nefna að í almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins var það ekki fyrr en á síðasta ári að björgunarsveitirnar á þessu svæði eignuðust áheyrnarfulltrúa í almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins. Áður áttu þær ekkert sæti þar og rödd þeirra heyrðist ekki. Þeir eru þó bakbeinið í öllu almannavarnakerfi og viðbrögðum á hættustund.

Aðgerðastjórnun í héraði er einnig skýr og tekið er fram hverjir skuli fara með stjórn. Stóri kosturinn við það er sá að þar vinnum við aftur að spila eftir því sama kerfi og við vinnum eftir dagsdaglega á hverju svæði þegar einhver óhöpp verða, hvort sem þau eru smá eða stór. Þá eru kallaðir til leiks þeir aðilar sem eru í þessum verkefnum á hverjum tíma og eru vanir að vinna með samræmingarstöðinni Skógarhlíð. Það fólk sem þekkir hvert annað og þekkir vinnubrögðin hvert hjá öðru og gengur eins og smurð vél.

Samræmingarstöðinni í Skógarhlíð er tryggður sá vettvangur sem hún þarf að starfa á. Það á bæði við um minni aðgerðir og stærri, svo sem almannavarnaaðgerðir. Þar getur yfirmaður þessarar aðgerðastjórnar ákveðið hvenær almannavarnaástand telst komið á, en það er eftir aðstæðum, eins og ég sagði áðan, mjög mismunandi. Samfélaginu er mikilvægt að til staðar sé skipulag og kerfi sem bregst fumlaust við og markvisst. Ég tel að við náum þeim árangri með samþykkt þessa frumvarps.

Annað er gott að hafa í huga af því að hér kom aðeins inn umræðan um ábyrgð sveitarfélaga, til dæmis í aðgerðastjórnun, og sú gagnrýni sem kom fram núna í vikunni frá brunamálastjóra. Það er enginn að gera sveitarfélögin stikkfrí í ábyrgð þeirra þegar kemur að aðgerðum og þeirra skylda og ábyrgð er rík eins og kemur fram í þessu frumvarpi. Við verðum aftur að hafa það í huga að eins og dæmin í raun sýna okkur þá eru alvarlegir atburðir í héraði oft mjög erfiðir fyrir þá sem þar búa og það er mikil áhætta tekin í því að leggja of mikla ábyrgð á þeirra herðar. Þetta sanna dæmin sem við höfum af stóráföllum í íslensku samfélagi á undanförnum árum. Það þarf ekkert að fara lengra í því og þetta getur hver séð í sjálfum sér. Að því leyti til eru þættir sem koma þarna inn eins og möguleg opnun á þjónustumiðstöð og síðan rannsóknarnefndin mjög mikilvægir líka.

Sú yfirsýn og það vald sem ábyrgum aðilum er falið með þessum lögum er að tryggja samræmd vinnubrögð allra viðbragðsaðila með sem bestum árangri fyrir þá sem eru hjálparþurfi. Ef vá er fyrir höndum, ég tala nú ekki um ef eitthvað hefur brostið á þá getur þjónustumiðstöðin sem kveðið er á um í þessu lagafrumvarpi gegnt mjög mikilvægu hlutverki og verið nauðsynleg. Hún sinnir upplýsingaskyldu til almennings og upplýsingaþjónustu til almennings. Hún skipuleggur allt starf gagnvart fórnarlömbum, ættingjum og öðrum sem þurfa að fá fréttir og hún skipuleggur starfið gagnvart fjölmiðlum sem gjarnan í dag þurfa að snúa sér beint til þeirra sem í hraða átakanna eru í því að stjórna aðgerðunum og þurfa að geta einbeitt sér að því án truflana. Með þessu held ég að við náum að þjónusta alla aðila miklu betur og koma upplýsingum vonandi með miklu markvissari hætti á hættustundu til þeirra sem á þurfa að halda með hjálp fjölmiðla.

Síðan koma eftirmálar stærri atburða og þá er hlutverk svona þjónustumiðstöðvar ekki minna þegar um er að ræða áfallahjálp við þá sem eiga um sárt að binda og svo margt annað sem þarf að gera, mörg önnur þjónusta. Þið munið örugglega mörg eftir snjóflóðunum á sínum tíma fyrir vestan 1995 og jarðskjálftum á Suðurlandi árið 2000 og eftirmála þeirra, hreinsanirnar allar fyrir vestan. Þetta eru svo viðkvæm mál og þarna erum við að brúa það bil og þarna erum við að bregðast við því að hafa enn frekara og ríkara skipulag á þeim þætti.

Það er einnig mjög mikilvægt að það skuli vera stofnuð hér rannsóknarnefnd sem fer með rannsókn á þessum málaflokki að atburðum liðnum. Við höfum rannsóknarnefndir í dag fyrir flest þau óhöpp sem verða, svo sem rannsóknarnefnd flugslysa, sjóslysa og umferðarslysa. En við höfum ekki haft formlega og sjálfstæða, óvilhalla rannsóknarnefnd sem hefur þetta hlutverk með höndum en er auðvitað gríðarlega mikilvægt vegna þess að eftir stóra atburði verður alltaf ágreiningur. Við komumst, held ég, aldrei í gegnum svona stór áföll og atburði án þess að gera einhver mistök í ferlinu. Það bara fylgir okkar mannanna verkum á þessum vettvangi sem öðrum. Þess vegna er svo mikilvægt að það sé formleg samantekt á hlutunum, að faglega sé farið yfir hlutina og að menn læri af reynslunni, auðvitað til þess að ná síðan sem bestum árangri í framtíðinni.

Herra forseti. Gríðarlegar breytingar hafa átt sér stað á umhverfi almannavarna og björgunarþjónustu í landinu á undanförnum árum. Nægir þar að nefna stofnun Neyðarlínu, eflingu lögreglu og björgunaraðila og Landhelgisgæslu. Eins og ég sagði áðan finnst mér eins og þetta frumvarp sé að ramma inn alla þá góðu vinnu sem þegar hefur verið unnin og miklu betur, leggur enn meira inn í málaflokkinn. Ég veit að í þeim hópum sem að þessum málaflokki starfa og hafa komið að þessari vinnu er almennt mjög góð sátt um þetta mál eins og það er lagt hér fram.