135. löggjafarþing — 27. fundur,  19. nóv. 2007.

greiðslur til foreldra langveikra og alvarlega fatlaðra barna.

209. mál
[16:53]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil í fáum orðum fara yfir meginefni frumvarpsins og fyrst segja af hálfu okkar þingflokks frjálslyndra að við styðjum frumvarpið í öllum meginatriðum þótt við áskiljum okkur rétt til að fara yfir einstök efnisatriði þess í meðförum þingnefndar og hafa skoðun á þeim atriðum sem þar kunna að leynast. Auðvitað geta verið margar útfærslur að leiðum að markmiðinu og getur verið ástæða til að fara yfir þær sem frumvarpið hefur að geyma og færa til betri vegar. En í meginatriðum erum við fylgjandi tilgangi þessa frumvarps.

Það má líta á málið út frá mörgum sjónarhornum. Eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra er um að ræða réttarbót fyrir þær fjölskyldur sem til þessa hafa búið við þær aðstæður sem frumvarpið tekur á án þess að njóta aðstoðar eða stuðnings frá ríkisvaldinu í þeim mæli sem lagt er til. Það er vissulega þarft og rétt að leggja það til. Það má líka líta á málið út frá sjónarhóli ríkisins vegna þess að ríkið er í raun að leysa vanda sem er samfélagslegur og á verksviði þess að kljást við. Það er ekki einvörðungu vandi foreldranna sem um er að ræða. Ef við berum þetta úrræði saman við það sem ríkið stendur fyrir gagnvart ýmsum öðrum hópum þar sem nauðsynlegt er að bjóða upp á stofnanavistun sjáum við að þetta úrræði er í raun miklu ódýrara fyrir ríkissjóð en önnur úrræði sem stundum er nauðsynlegt að grípa til. Mér finnst það eiginlega rökstuðningur fyrir því að fara þessa leið og gera það dálítið myndarlega. Úrræðið er frá fjárhagslegum sjónarhóli ríkissjóðs tiltölulega ódýrt borið saman við að önnur dýrari úrræði væru ella nauðsynleg.

Ég nefni sem dæmi lögin um félagslega aðstoð, hygg ég að það sé, þar sem fjallað er um umönnunarbætur og umönnunargreiðslur aldraðra. Það úrræði er svipaðs eðlis. Ríkissjóður greiðir einstaklingum laun til að annast aldraðan í heimahúsi og þótt ríkissjóður verji til þess fé þá er kostnaður ríkissjóðs aðeins um fjórðungur þess sem það kostar að reka eitt pláss á dvalar- eða hjúkrunarheimili fyrir aldraða. Þetta vildi ég nefna til að menn hefðu samanburðinn. Auðvitað eru mörg úrræði sem kemur til greina af hálfu ríkisins að bjóða upp á og það skiptir máli hvert þeirra er valið. Þar þarf að líta til margra þátta. Í fyrsta lagi þarf úrræðið að nýtast þeim sem í hlut á sem best og í öðru lagi þarf það að vera skynsamlegt og fjárhagslega viðráðanlegt.

Ég velti aðeins fyrir mér atriði sem mér finnst ekki koma skýrt fram í frumvarpinu, kannski vegna þess að þar er reynt að koma á breytingum og ef til vill ekki allir tilbúnir til að stíga stærri skref en þar er lagt til. En mér virðist frumvarpið byggjast fyrst og fremst á því að bæta foreldrum sem eru á vinnumarkaði tekjutap vegna þess að þeir þurfi að annast börn sín við þessar aðstæður. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort fyrir liggi einhverjar áætlanir eða hugmyndir um annan kostnað sem foreldrarnir verða fyrir vegna barnanna. Það gætu verið lyf, læknisaðstoð og annað slíkt. Mér virðist mögulegt að foreldrarnir geti orðið fyrir umtalsverðum kostnaði sem ekki er séð fyrir í frumvarpinu og ég spyr: Er það rétt að svo geti verið? Væri ekki nauðsynlegt að skoða það í meðförum þingnefndar hvort ekki sé rétt að líta til þessa kostnaðar og reyna að koma inn í frumvarpið ákvæði sem mætir honum a.m.k. að einhverju leyti? Ég get ímyndað mér að það séu dæmi um umtalsverðan og tilfinnanlegan kostnað á einstökum heimilum vegna langveikra eða alvarlega fatlaðra barna. Ég vildi því stinga þessu inn í umræðuna.

Í öðru lagi langar mig að spyrjast nánar fyrir um lagaskilin. Mér sýnist á 20. gr. frumvarpsins að í raun verði skil í kringum þann tíma sem greining á sér stað þannig að þeir sem eru greindir eftir 1. október á þessu ári fái greiðslur samkvæmt frumvarpinu en þeir sem fyrr séu greindir fái greitt samkvæmt núgildandi kerfi. Ég spyr: Er ekki eðlilegt, af því að hér er um að ræða ívilnandi aðgerðir gagnvart einstaklingum sem búa við tilteknar aðstæður, að breytingin gildi gagnvart öllum sem í hlut eiga þannig að ekki komi upp tvískiptur hópur foreldra og þeir fái mismunandi greiðslur af þeirri einni ástæðu að greiningin fór fram fyrir tiltekinn dag? Ég held að það geti varla talist sanngjörn afgreiðsla af hálfu Alþingis, að gera slíkan greinarmun á, ef hann er eins og mér sýnist hann geta verið samkvæmt því sem fram kemur í frumvarpinu.

Ég tek undir það sem kom fram hjá hæstv. ráðherra, að kostnaður sem getur fallið til varðandi sálfræðimeðferð getur verið umtalsverður. Ég vek athygli á því að hann er oft á tíðum utan almannatryggingakerfisins. Því miður er það enn þá þannig að sá kostnaður og tannlæknakostnaður er að miklu leyti utan almannatryggingakerfisins, sem gerir það ófullkomið. Það er ekki ásættanlegt. Við þingmenn Frjálslynda flokksins höfum lagt fram frumvarp til að bæta úr varðandi tannlækningar og tannréttingar. En það er rétt ábending hjá hæstv. ráðherra að sálfræðikostnaðurinn getur legið dálítið mikið á foreldrunum. Það er ástæða til að líta til þess við athugun málsins í nefndinni.

Ég vil ekki hafa fleiri orð um þetta mál að sinni, virðulegi forseti, en ég árétta almennan stuðning okkar við markmið frumvarpsins.