135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[18:05]
Hlusta

Frsm. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Aðeins varðandi þessa fjárveitingu, millifærslu til Vegagerðarinnar: Vandinn er sá að málið er ekki afgreitt heldur er það áfram látið vera í millifærsluformi innan Vegagerðarinnar. Það tel ég miður. Það á að afgreiða þetta mál, það liggur fyrir með þeim hætti að greiða þarf þessar 500 millj. kr. og þá á bara að gera það, ekki vera með þsennan millifærsluleik og láta málið síðan koma upp með öðrum hætti síðar.

Ég vildi líka víkja að tillögunni, sem ég og hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson flytjum, um að fella brott heimild ríkisins til að selja hlut sinn í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar og þar með Deildartunguhver. Sams konar heimild, þær stóðu hlið við hlið, var á fjárlögum þessa árs til að selja Hitaveitu Suðurnesja. Ríkisstjórnin nýtti sér heimildina og þrátt fyrir að á Alþingi hafi verið sagt, þegar Hitaveita Suðurnesja var hlutafélagavædd, að stefnt yrði að því að selja hlutinn til sveitarfélaganna var í útboði ríkisins komið í veg fyrir að sveitarfélögin gætu keypt með beinum hætti hlutinn í Hitaveitu Suðurnesja.

Ég vil afdráttarlaust að þessi heimild sé tekin út af fjárlögum. Það sýndi sig að misvitur ríkisstjórn varð ekki neitt skárri þó að Samfylkingin væri þar innan borðs, að minnsta kosti ekki hvað varðar Hitaveitu Suðurnesja, alls ekki. (GSv: Það er nú vitleysa.) Hún hafði kannski hugsað eitthvað en gerði ekkert. Ég vil því að þessi heimild, til að selja hlut ríkisins í Hitaveitu Akraness og (Forseti hringir.) Borgarfjarðar og Deildartunguhver, (Forseti hringir.) verði tekin út. Ég spyr hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála mér í því.