135. löggjafarþing — 30. fundur,  21. nóv. 2007.

húsnæðismál.

[13:53]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Það er hárrétt að ég skipti um föt eftir síðustu kosningar og fór í stjórnarandstöðu. Það er heiðarlegt. (Gripið fram í: Fórstu í sturtu?) En hins vegar er það svo að hæstv. iðnaðarráðherra er í ráðherrafötum á daginn en situr nakinn á nóttunni við bloggið sitt og er þá í stjórnarandstöðu. Hann er tvítengdur, hann er tengdur okkur á nóttunni, ríkisstjórninni á daginn og til hamingju með það. Hann er fjölbreyttari stjórnmálamaður en ég hef þekkt og fjöllyndari.

En staðreyndin er sú að ef ég spyr ungt fólk á Íslandi þá þakkar það Framsóknarflokknum fyrir mjög gott húsnæðislánakerfi. 90% lán áttu að koma, borguð á 25–40 árum, til að ungt fólk gæti gengið inn í nýjar eignir, fjárfest og búið við eðlilegan fjárhag. Þetta kerfi er gott, því neitar enginn. Það er ekki hrunið, þetta kerfi. Hins vegar þarf alltaf að vinna úr vandanum.

Sjálfstæðisflokkurinn reynir alla tíð að halda því fram að 90% lánin hafi verið tímaskekkja og vitleysa. (Gripið fram í: Tímasprengja.) Það voru bankarnir sem komu inn á markaðinn til að sprengja Íbúðalánasjóð út, þeir vildu ekki hafa hann, þeir ætla að hirða þau verkefni, þeir eru farnir.

Og þið skuluð athuga annað. Hvað þýðir aukið framboð af fjármagni? Aukið framboð af smjöri eða mjólk þýðir lækkun á verði. Bankarnir hafa hækkað vexti upp úr öllu valdi. Þeir buðu unga fólkinu um 4,15% fyrir þremur árum. Í dag bjóða þeir 6,40 upp í 7,15. Þeir hafa hækkað greiðslubyrðina á þessu fólki milli 500 og 600 þúsund á ári. Þetta var framboðið, þetta er samkeppnin. Þetta er bankalegt vandamál sem við glímum við á húsnæðismarkaðnum. Bankarnir eru hins vegar inni í byggingarbransanum. Þar hefur íbúðaverðið hækkað. (Forseti hringir.) Ég áminni Sjálfstæðisflokkinn um það framboð, um þá eftirspurn sem þá á að ríkja. Þess vegna hefði íbúðaverðið átt að lækka. (Forseti hringir.) Vandamálin eru mörg en það er hlutverk þeirra sem sitja í ríkisstjórn að fást við verkefnin og leysa þau, ekki tala um þá sem voru heldur vinna sín verk eins og við gerðum framsóknarmenn (Forseti hringir.) á hverjum tíma. (Gripið fram í.)