135. löggjafarþing — 30. fundur,  21. nóv. 2007.

aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum.

34. mál
[14:38]
Hlusta

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum. Flutningsmenn tillögunnar auk þeirrar sem hér stendur eru hv. þingmenn Kolbrún Halldórsdóttir, Arnbjörg Sveinsdóttir, Katrín Júlíusdóttir, Guðjón A. Kristjánsson og Magnús Stefánsson.

Í tillögunni kemur fram að Alþingi álykti að félagsmálaráðherra feli Jafnréttisstofu það verkefni að hrinda af stað aðgerðum í því skyni að efla hlut kvenna í sveitarstjórnum.

Staða kvenna og karla er að mörgu leyti mjög ósambærileg á Íslandi og vil ég nefna nokkur dæmi áður en ég fer yfir sjálfa tillöguna. Það er ljóst að auðvelt er að benda á launamun kynjanna. Konur eru að meðaltali með lægri laun en karlar á Íslandi og þar munar líklega 15–18%. Sú staða veldur því að á hverju ári og við ákveðin tækifæri fara konur í kröfugerð til að mótmæla þessari stöðu og krefjast jafnra launa fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf og karlar sinna. Það hefur verið mjög mikill kraftur í þessari kröfugerð, launamunurinn hefur minnkað að einhverju marki en alls ekki eins mikið og við höfðum vonast til, því miður. Ríkisstjórnin hefur sett það í stefnu sína að reyna að minnka launamun kynjanna um allt að helming, ef ég man hvernig þetta er orðað, og vonandi sjáum við því einhverjar breytingar í þessu, því að það verður að segjast eins og er að það hefur gengið ótrúlega hægt að minnka þennan launamun.

Ég vil líka nefna að konur verða miklu frekar fyrir barðinu á heimilisofbeldi en karlar á Íslandi eins og í öllum öðrum samfélögum Það er ljótur blettur á okkar samfélagi og það er mál sem við þurfum líka að taka á og laga.

Í þriðja lagi vil ég nefna að konur hafa of lítil áhrif í samfélaginu. Þær hafa of lítil áhrif í stjórnmálum, þær eru of fáar og komast yfirleitt ekki jafnhátt og hratt til valda og karlar almennt og eru því of áhrifalausar þar. Þær hafa líka allt of lítil áhrif í atvinnulífinu almennt, þær eru ekki nógu sýnilegar í forustu þar almennt. Konur hafa líka mun minni efnahagsleg völd en karlar, maður sér það á öllum tölum sem hægt er að vitna í að konur hafa afar lítil efnahagsleg völd miðað við karlana.

Í fjórða lagi langar mig að nefna fjórða valdið, þ.e. fjölmiðlana. Það er alveg ljóst að fjölmiðlar hafa geysilega mikið vald í nútímasamfélagi og líklega miklu meira vald en menn hafa séð áður. Fjölmiðlar eru því mikilvægt vald, fjórða vald, og ég tel að það sé eitt af þeim mikilvægu verkefnum sem bíða okkar í jafnréttisbaráttunni á næstu árum að breyta valdahlutföllum bæði yfir fjölmiðlum og innan þeirra. Það þarf að koma konum meira til áhrifa innan fjölmiðlana og maður spyr sig: Af hverju er öllum mikilvægustu fjölmiðlum landsins meira og minna stjórnað af körlum? Ég vona að jafnréttissinnar og þeir sem sjá hvernig þessi staða er einhendi sér í að vinna að fullu jafnrétti hjá fjölmiðlum landsins. Það mundi flýta mjög fyrir góðum árangri á öðrum sviðum jafnréttisbaráttunnar.

Varðandi tillöguna vil ég líka nefna að í ár, 2007, eru nákvæmlega 100 ár síðan Bríet Bjarnhéðinsdóttir ásamt nokkrum öðrum konum stofnaði Kvenréttindafélag Íslands á heimili sínu að Þingholtsstræti 18 í Reykjavík. Af því tilefni var haldin mikil hátíð fyrr á árinu og í þar síðustu viku var afhjúpaður minnisvarði um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur og hennar mikla framlag til kvenréttindamála. Það var mjög hátíðleg athöfn og skemmtileg saga hvernig hún kom til. Það var þannig að í göngu um kvennaslóðir sem farin er árlega, en þá taka konur sig til og ganga um svokallaðar kvennaslóðir í Reykjavík, kom Auður Styrkársdóttir, forstöðumaður Kvennasögusafnsins, því á framfæri að ekki væru til neinir minnisvarðar um konur á Íslandi á sambærilegan hátt og af körlum og þá var Bríet Bjarnhéðinsdóttir sérstaklega nefnd til sögunnar. Þetta varð til þess að félagsmálaráðherra á þeim tíma ásamt mér sem þá var umhverfisráðherra fluttum tillögu um þetta í ríkisstjórn. Hún var samþykkt, þ.e. að reisa minnisvarða til að heiðra starf Bríetar og sá minnisvarði var afhjúpaður um daginn. Nú geta konur því farið í Þingholtsstrætið þar sem þessi minnisvarði er, sem Ólöf Nordal listakona gerði, og notað þennan stað til ýmissa samkomuhalda og þegar eitthvað stendur til. Bríet lagði mjög mikla áherslu á að konur fengju fullt stjórnmálajafnrétti á við karlmenn, að þær fengju kosningarrétt, kjörgengi og rétt til embætta og atvinnu með sömu skilyrðum og karlar. Þetta var á dagskrá Kvenréttindafélagsins á sínum tíma og er enn. Árið 1915 fengu konur, 40 ára og eldri, kosningarrétt og árið 1920 fengu konur almennan kosningarrétt til jafns við karla. Konur hafa því ekki haft kosningarrétt í mjög langan tíma á Íslandi, virðulegi forseti.

En á þessum tíma kom strax fram andstaða við að konur væru í pólitík. Í blaðinu Ingólfur frá árinu 1911 réðst einn höfundur blaðsins mjög harkalega á þá hugmynd að konur ættu að fara í stjórnmál og hann taldi að meiri hluti íslenskra kvenna væri mótfallinn því. Réttindin voru talin óheillavænleg fyrir giftar konur, ógiftar mættu ef til vill fást við pólitík þótt það væri óeðlilegt en þær yrðu þá helst að undirgangast það að gifta sig aldrei. Þannig var viðhorfið á þeim tíma. Alveg ótrúlegt að lesa þetta í dag, virðulegi forseti.

Bríet skrifaði fyrstu blaðagreinina á opinberum vettvangi sem kona skrifaði og hún hélt líka fyrsta fyrirlesturinn sem kona hélt á Íslandi og hann hét Fyrirlestur um hagi og réttindi kvenna. Maður átti að borga 50 aura fyrir að fá að hlusta á hann. Þannig að sagan er nú skemmtileg þegar skoðað er hvernig konur börðust fyrir réttindum sínum hér fyrr á síðustu öld.

Í þeirri tillögu sem hér er til umfjöllunar er mjög mikilvægt að undirstrika það að næstu sveitarstjórnarkosningar verða árið 2010, þ.e. eftir þrjú ár og það er alveg ljóst að konur eru hvorki nógu margar í sveitarstjórnum né á Alþingi. Það þarf að bæta hlut þeirra af því það er ekki hægt að tala um þroskað lýðræði í nokkru samfélagi fyrr en konur eru nokkurn veginn til jafns við karla í stjórnmálunum og þá á ég við að hlutfall kvenna sé a.m.k. 40%.

Við höfum ekki náð því, virðulegi forseti, og því er eðlilegt að Jafnréttisstofu verði falið það verkefni að stýra aðgerðum til þess að ná því hlutfalli til þess að reyna að flýta fyrir þeirri ótrúlega hægu þróun sem á sér stað.

Ef við skoðum tölurnar sem koma fram í þingsályktunartillögunni, þá sjáum við að konur í sveitarstjórnum eru núna 35,9% og þeim hefur fjölgað hægt og bítandi en það gengur þó allt of rólega. Það er líka staðreynd að við búum við svokallað glerþak í eiginlega öllum vestrænum ríkjum, en glerþak er það kallað að þegar konur komast í hlutfallið 30–35% þá er eins og ekki náist að bæta það hlutfall. Það er eins og það sé eitthvert þak sem við rekum höfuðið upp undir. Og hlutfallið fer að sveiflast upp og niður þegar því hlutfalli er náð.

Það er einmitt það sem gerðist í alþingiskosningunum. Við sáum að t.d. árið 1999 jókst hlutur kvenna á Alþingi mjög verulega. Þá var sams konar verkefni í gangi og verið er að leggja til að sett verði af stað nú. Það var verkefni sem sú er hér stendur flutti fram sem þingsályktunartillögu á sínum tíma og þótti mjög óvenjulegt að fá hana samþykkta af því að það er nú ekki verið að samþykkja hér þingsályktunartillögur frá þingmönnum í löngum bunum.

Að þeirri tillögu stóðu fulltrúar úr öllum flokkum og hún var samþykkt. Verkefnin fóru af stað. Það voru miklar auglýsingaherferðir til að hafa áhrif bæði á umræðuna í samfélaginu og prófkjör og annað. Menn muna kannski eftir myndunum sem þá voru sýndar, það voru mjög óhefðbundnar myndir af stjórnmálaforingjum í alls konar hlutverkum, sem voru skemmtilegar blaðaauglýsingar. Það voru haldin námskeið í ræðumennsku fyrir konur sem höfðu áhuga á að starfa í pólitík. Það var sendur út sjónvarpsþáttur um þetta efni og það var miklum þrýstingi beitt á flokkana. Þetta varð til þess að konum fjölgaði um 10% milli kosninga. Konur eins og hæstv. menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, hafa sagt opinberlega að þetta verkefni hafi m.a. orðið til þess að hún náði mjög góðum árangri í prófkjöri.

Verkefninu lauk og því var ekki viðhaldið þrátt fyrir að mjög margir óskuðu eftir að þetta yrði stöðugt verkefni. En það var ekki tekið vel undir það, því miður, þannig að því lauk. Í kosningunum þar á eftir, árið 2003, kom mikið bakslag en þá féll prósentan niður í rúmlega 30%, sem sagt úr 35% niður í 30%. Það kom bakslag upp á 5%. Þetta er auðvitað eitthvað sem við viljum ekki sjá og við viljum ekki sjá þetta eiga sér stað í næstu sveitarstjórnarkosningum. Þess vegna tel ég brýnt að við förum út í þetta verkefni.

Ég vil líka, virðulegur forseti, þar sem hér er verið að tala um lýðræðið og hversu mikilvægt sé fyrir lýðræðið að konur séu í forustu og að þær séu til jafns við karla í stjórnmálum, benda á að það eru tveir karlmenn í salnum og þeir sitja báðir fyrir aftan þá er hér stendur. Í sætum þingmanna í salnum eru fjölmargar konur en ekki einn einasti karlmaður og ef þeir heyra þetta í kaffistofunni eða í matsalnum þá mega þeir alveg hópast hingað og taka þátt í umræðunni því að mér er sagt að í öllum flokkum séu menn sammála um að það sé æskilegt að konur taki þátt í stjórnmálum. Þess vegna er kannski eðlilegt að karlmenn taki þátt í þessari umræðu líka.

Það er alveg ljóst að þetta bakslag varð til þess að menn fóru að leita skýringa. Sú sem hér stendur og fleiri stjórnmálamenn hafa talið að ein skýring gæti verið sú að þeim flokkum sem buðu upp á fáar konur í alþingiskosningunum 2003 var refsað, þ.e. konur kusu þá flokka í minna mæli. Það var sérstaklega einn flokkur sem missti konur út og það átti sér stað í prófkjörum, það var Sjálfstæðisflokkurinn. Þar duttu konur út í talsverðum mæli í prófkjörum. Ungu karlarnir sem höfðu náð góðum árangri í prófkjörunum ruddu konum frá, öflugum konum sem höfðu verið hér í þinginu þannig að þær féllu niður listann. Þarna liggur stærsti hluti skýringarinnar, ef maður skoðar hlutföllin.

Við þurfum að vera vakandi fyrir því að prófkjörin geta haft svona áhrif þó að ég telji reyndar að prófkjör geti líka verið góð fyrir konur en almenningur þarf virkilega að skynja að nú sé kominn tími á að konur komist í auknum mæli til áhrifa við stjórn landsins, eða stjórn sveitarfélaga og komi þá og hópist til að kjósa konur í prófkjörunum. En í umræddu prófkjöri virtust ungu karlmennirnir standa saman að einhverju leyti um að kjósa sig og sína vini sem voru að sækjast eftir áhrifum.

Fjölmiðlarnir á þessum tíma, og svo sem yfirleitt, hafa líka endurspeglað svolítið þennan lýðræðishalla en í fjölmiðlum er hlutfallslega rætt meira við karla en við konur. Fjölmiðlarnir segja stundum sér til varnar að konur séu færri þannig að það séu færri til að tala við. En í þessari kosningabaráttu og í þessari prófkjörsbaráttu er ekki hægt að notast við þá afsökun, það er ekki hægt að segja að hún hafi átt við af því þarna voru konur sem gáfu kost á sér.

Það var alveg hægt að sjá samhengi þarna á milli, miðað við konurnar voru þessir ungu karlar sem voru að berjast við þær um sæti mjög oft í hinum svokölluðu kjaftaþáttum eða umræðuþáttum í sjónvarpi eða útvarpi. Sumir gengu svo langt að kalla niðurstöðuna úr prófkjörunum og svo niðurstöðurnar úr kosningunum, að kjaftaþættirnir hafi sigrað, þ.e. að þeir sem voru áberandi þar þeir voru kosnir. Þetta er því eitthvað sem ég tel að stjórnmálaflokkar og fjölmiðlar þurfi að huga betur að, þ.e. að koma á meira jafnvægi að þessu leyti.

En virðulegi forseti. Ég tel að þessi þingsályktun sé mjög mikilvæg. Ég veit að hæstv. (Forseti hringir.) félagsmálaráðherra er ágætur jafnréttissinni og ég vona að þessi tillaga fái góða umfjöllun í þinginu og í nefnd og verði samþykkt.