135. löggjafarþing — 30. fundur,  21. nóv. 2007.

aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum.

34. mál
[15:12]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir afar greinargott svar. Ég held að hún hafi lög að mæla í svari sínu. Hún nefnir fjórar ástæður þess að konur tolla skemur í stjórnmálum en karlar. Í fyrsta lagi nefnir hún álag. Í öðru lagi að heimilisábyrgð hvíli enn meira á konum en körlum. Í þriðja lagi nefnir hún meðferðina sem konur fá í fjölmiðlum. Í fjórða og síðasta lagi nefnir hún framgang kvenna innan stjórnmálaflokkanna. Allt eru þetta mjög veigamikil atriði sem ég held að fjölmiðlar, stjórnmálaflokkarnir og við öll sem á umræðuna hlýðum þurfum að taka með okkur sem veganesti í áframhaldandi umræður og lausn.