135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

fíkniefnavandinn.

[14:18]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að fíkniefnavandinn sé til umræðu í þingsölum. Hann er víðfeðmur og mjög mikilvægt að skýr skilaboð komi frá Alþingi um að tekið verði á vandanum. Mikilvægast tel ég að móta heildræna stefnu um forvarnir og kortleggja forvarnastarf í landinu til að leggja mat á gæði starfsins. Það þarf einfaldlega að leggja meiri fjármuni til virkrar forvarnastefnu og forvarnaaðgerða. Stjórnvöld gætu staðið sig betur í þeim efnum.

Til að mynda er full þörf á að styrkja betur þá aðila og félagasamtök sem vinna að félagslegu forvarnastarfi. Vil ég þá sérstaklega nefna SÁÁ, Samhjálp og Vímulausa æsku. Það er að mínu mati óverjandi að meðan fjárlög hækka um 20% skuli SÁÁ vanta um 242 millj. kr. til að láta enda ná saman í rekstri sínum. Sömu sögu má segja um önnur félagasamtök. Þau sjá fram á erfiðan rekstur. Það þarf einfaldlega að hækka hlutfall áfengisgjalds í Forvarnasjóð og framlög til málaflokksins í heild.

Það þarf líka að efla íþrótta- og tómstundastarf barna og unglinga. Skipuleg ástundun í umsjá ábyrgra aðila dregur verulega úr líkum á lífsstíl sem felur í sér vímuefnanotkun. Þar á ríkið á að koma mun betur að borði. Ég vil nefna sem dæmi að efla mætti ungmennahreyfingu landsins og einnig mætti stórauka framlög í jöfnunarsjóð íþróttafélaga svo hann standi raunverulega undir nafni. Það er einfaldlega þannig að öflugt íþróttastarf dregur úr líkum á vímuefnaneyslu.

Forvarnir fela í sér að beina fólki á rétta braut frá fíkniefnum. Það eru því sláandi tölur að drykkja ungmenna um sumar, milli grunnskóla og framhaldsskóla, skuli aukast um 105%. Það er gott að heyra að taka eigi á þeim vanda í samvinnu við nemendafélög í framhaldsskólum.