135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

úrvinnslugjald.

242. mál
[15:24]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um úrvinnslugjald. Lög þessi hafa tekið nokkrum breytingum frá því að þau voru samþykkt fyrst árið 2002, en vegna efnis laganna var gert ráð fyrir því í upphafi að upphæð gjalda samkvæmt lögunum mundi breytast reglulega. Það má segja að fyrir þá hv. þingmenn sem hafa setið í umhverfisnefnd sé frumvarp til laga um breytingar á lögum um úrvinnslugjald árlegur fastagestur.

Þær breytingar sem frumvarpið mælir fyrir um eru af tvennum toga. Í 1. gr. er lögð til frestun á álagningu úrvinnslugjalds í stað núverandi skilagjalds og umsýsluþóknunar á einnota drykkjarvöruumbúðir úr áli, stáli, gleri og plastefnum um tvö ár þannig að ákvæði til bráðabirgða I komi til framkvæmda 1. janúar 2010 í stað 1. janúar 2008 eins og nú gildir. Þannig er lagt til að starfsemi Endurvinnslunnar hf., sbr. lög nr. 52/1989, um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, verði óbreytt til þess tíma, þ.e. til 1. janúar 2010. Ákvæðið var upphaflega sett með það að markmiði að Endurvinnslan hf. hætti starfsemi í núverandi mynd og hluti af starfsemi hennar færðist til Úrvinnslusjóðs.

Miklar breytingar hafa orðið á tilhögun um úrvinnslu úrgangs frá því að lögin voru sett árið 2002 og er nú m.a. lögð aukin áhersla á ábyrgð framleiðenda vegna meðhöndlunar úrgangs. Vilji er fyrir því að setja einnota drykkjarvöruumbúðir í kerfi sem framleiðendur bera ábyrgð á en gefa verður rýmri tíma og rými til að vinna að því verkefni og því er lagt til að gildistöku þessa ákvæðis verði frestað um tvö ár.

Í öðrum greinum frumvarpsins eru lagðar til breytingar á fjárhæð úrvinnslugjalds á nokkra vöruflokka. Í 2. gr. er lögð til lækkun úrvinnslugjalds á heyrúlluplast. Lækkun gjaldsins er til samræmis við úrvinnslugjald á annað umbúðaplast enda er meðhöndlun á innsöfnuðu heyrúlluplasti sams konar og meðhöndlun annars umbúðaplasts auk þess sem sameining heyrúlluplasts og umbúðaplasts í einn flokk mun nýtast til að ná markmiðum Íslands um endurnýtingu og endurvinnslu umbúða gagnvart tilskipunum Evrópusambandsins um umbúðir og umbúðaúrgang. Áætluð lækkun tekna af úrvinnslugjaldi af þessum sökum er 31,4 millj. kr. á heilu ári.

Í 3. og 4. gr. frumvarpsins er lögð til hækkun úrvinnslugjalds á málningu og litarefni og vörur í ljósmyndaiðnaði. Tillaga er gerð um að úrvinnslugjald á málningu og litarefni hækki um 25%, eða úr 20 kr. á kíló í 25 kr. á kíló. Þetta er lagt til þar sem tekjur af þessum vöruflokki hafa ekki staðið undir árlegum rekstri sjóðsins en hlutfall skila á málningarafgöngum hefur verið hærra en áætlanir gerðu ráð fyrir. Gera má ráð fyrir að með þessari hækkun snúist halli sjóðsins vegna þessa vöruflokks við og innan 3–5 ára verði komið jafnvægi þessa úrgangsflokks hjá sjóðnum.

Þá er gerð tillaga um að úrvinnslugjald á vörur í ljósmyndaiðnaði hækki um 41%. Tillagan er gerð vegna þess að tekjur af þessum vöruflokki hafa minnkað með tilkomu stafrænnar tækni við prentun en tilkostnaður og magn úrgangs hefur ekki minnkað að sama skapi. Í ljósi þess að notkun framköllunarvökva fer minnkandi ár frá ári verður að bregðast við með þessum hætti svo að jafnvægi náist í sjóðnum á 3–5 árum vegna þessa vöruflokks. Áætluð hækkun tekna á heilu ári er 8,6 millj. kr. af málningu og 4 millj. kr. af framköllunarvökvum.

Loks er í 5. gr. leiðrétting sem kemur í veg fyrir að úrvinnslugjald á hjólbarða sé lagt á beltagröfur. Breyting tekna af úrvinnslugjaldi af þessum sökum er óveruleg.

Verði frumvarpið óbreytt að lögum má því ætla að samanlagt lækki tekjur af úrvinnslugjaldi um 18,8 millj. kr. á heilu ári. Tekjur af úrvinnslugjaldi renna óskiptar til Úrvinnslusjóðs að undanþegnu 0,5% umsýslugjaldi sem rennur til ríkissjóðs.

Frú forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. umhverfisnefndar að lokinni 1. umr.