135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum.

34. mál
[16:15]
Hlusta

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil koma því á framfæri, út af sveitarstjórnarkosningunum, að ég skoðaði það sérstaklega einu sinni. Í ljós kom að konur sem höfðu verið í sveitarstjórnum skiluðu sér meira inn í landsmálin miðað við karlana. Það var líklega af því að karlarnir höfðu önnur net sem þeir gátu skilað sér í gegnum. Þeir voru líka meiri ættarlaukar, feður þeirra eða einhverjir í fjölskyldunni höfðu verið þingmenn áður. Þannig að þeir erfðu einhverjar prófkjörsvélar o.s.frv. Ég skoðaði þetta sérstaklega og það var mjög gaman að því.

En ég ætla að rifja upp slagorðin sem hv. þingmaður mundi ekki eftir. Ég held ég muni þau nokkurn veginn. Ég held að það sé ágætt fyrir umræðuna að hafa þau skráð með. Auglýsingaherferðin varð svo fín á endanum að hún fékk verðlaun og hún varð meira að segja fræg út fyrir landsteinana. Hæstv. forsætisráðherra, Geir H. Haarde, lenti í viðtali, á CNN minnir mig, út af þessari auglýsingaherferð, eða BBC var það. Það tókst að fá Davíð Oddsson í auglýsinguna. Hann sagði já fyrst. Til stóð að setja hann í kvenskó. Hann vildi ekki fara í skóna en hann var til í að halda á þeim og vera á sokkaleistunum í stól. Fyrirsögnin var: Setjum okkur í spor kvenna. Síðan kom standard texti um hve mikilvægt væri að fá konur í stjórnmál.

Sighvatur Björgvinsson var með brjóstahaldara. Þar stóð: Lyftum þeim upp. Það var stórsnjöll fyrirsögn. Halldór Ásgrímsson var með nælonsokkabuxur. Á þeim var gat og hann var að leita að gatinu og textinn var: Konur sjá meira en við sjáum. Margrét Frímannsdóttir var að raka sig í spegli með raksköfu. Þar stóð: Látum hlut kvenna endurspegla hlutfall þeirra meðal þjóðarinnar. Guðný Guðbjörnsdóttir var á snyrtingu og hélt höndunum á veggnum og þar stóð: Okkur er ekki til setunnar boðið. Steingrímur J. Sigfússon var með púða undir skyrtunni, var þungaður, og þar stóð: Sum reynsla kvenna er okkur hulin.