135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

friðlandið í Þjórsárverum og verndun Þjórsár.

48. mál
[18:06]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að ég og hv. þm. Árni Johnsen séum sammála um rányrkju þó að útfærslan sé svolítið önnur. Ég lít þetta öðrum augum, ég lít á það sem rányrkju að taka Þjórsá úr sambandi og taka vatnið af þessum fallegu fossum, Búðarfossi og Urriðafossi, að taka vatnið úr ánni. Af hverju segi ég það? Jú, vegna þess að þá er þróunin ekki sjálfbær. Af hverju segi ég það? Jú, það er ekki hægt að færa ána í samt lag. Við erum að framkvæma það sem heitir óafturkræf náttúruspjöll. Við erum í því tilliti að ganga gegn, ef ég má nefna það, lögum um Evrópska efnahagssvæðið sem segir okkur að við höfum einsett okkur að varðveita, vernda og bæta umhverfið og sjá til þess að náttúruauðlindir séu nýttar af varúð og skynsemi, einkum á grundvelli meginreglunnar um sjálfbæra þróun og þeirrar meginreglu að gripið skuli til varúðarráðstafana og fyrirbyggjandi ráðstafana. Það fela þessar virkjanir ekki í sér.

Mér er oft spurn í þessum virkjunarmálum og öðru: Eru menn að tjalda til einnar nætur í lífi þjóðar? Ég hygg oft að svo sé. Hálslón er dæmi um það, sem fyllist á 100–200 árum, það er dæmi um það. Ég er líka alveg sammála því að við eigum að hugsa um fólkið, en fólkið er líka afkomendur okkar. Ef eitthvert gott dæmi er um sjálfbæran búskap þá hefur eggjataka í úteyjum og meðhöndlun Vestmannaeyinga á úteyjum verið til mikillar fyrirmyndar.