135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

íbúaþróun utan höfuðborgarsvæðisins.

214. mál
[14:29]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þeim sem tekið hafa þátt í þessari umræðu og ráðherranum fyrir svörin. Að mörgu leyti er ég sammála því sem hann dró saman sem sína niðurstöðu, að það sé líklegt að þróunin verði þannig að á þeim svæðum landsins þar sem þróunin hefur verið afleit á síðustu árum, þ.e. Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og að hluta til á Austurlandi muni draga meira í sundur með höfuðborgarsvæðinu og þeim svæðinu bæði í tekjum og störfum. Það mun þýða áframhaldandi fólksfækkun á þeim svæðum og líklega hraðari fólksfækkun en verið hefur til þessa vegna áhrifanna af svona mikilli skerðingu á þorskveiðiheimildum. Það er auðvitað alvarleg staða sem verður að bregðast við.

Formaður Samtaka fiskvinnslustöðva hefur áætlað að samdrátturinn í þorskveiðiheimildum einum muni fækka störfum í fiskvinnslu um 500 og hann áætlar að störfum í sjávarútvegi muni fækka um 1.000. Mér þykir einkennilegt að stofnanir ríkisins skuli ekki hafa tiltækar neinar áætlanir um hvernig þróunin verði á næstu árum í kjölfar þessarar ákvörðunar sem er pólitísk ákvörðun fyrst og fremst þó að hún sé byggð á tilteknum forsendum. Þeir sem taka slíka ákvörðun eiga að mínu viti að undirbúa þær með því að leitast við að gera sér grein fyrir áhrifunum og koma síðan fram með aðgerðir sem eiga að vega þar upp á móti.

Ég tel að allt það sem gert er í nafni mótvægisaðgerða sé af hinu góða og geri hver þáttur í því sitt gagn hvort sem það eru samgöngubætur eða flutningur starfa. Það sem ég held hins vegar, virðulegi forseti, er að það sem gert er í mótvægisaðgerðum sé ekki nema brot af hinu sem er verið að draga saman og þess vegna verði áhrifin svona slæm.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að huga betur að því (Forseti hringir.) hvernig þróunin verður á köldustu svæðum landsins í skilningi hagvaxtar, á Norðurlandi vestra og Vestfjörðum, og spyr hann um það hvað hann er að hugleiða varðandi Norðurland vestra með ummælum sínum áðan.