135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

samningur um framleiðslu dagskrárefnis fyrir RÚV.

[15:43]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Efnamenn Íslands fyrr og síðar og atvinnulíf hafa víða komið að menningarstarfi, íþrótta- og æskulýðsstarfi. Ég fagna og styð þann samning sem Ríkisútvarpið hefur nú gert. Aðskilnaður er klár og skýr, hér réttir Björgólfur Guðmundsson styrka hönd til að taka á með vanhaldinni listgrein sem er leikið sjónvarpsefni.

Þessi stuðningsaðferð er ekki tekjur fyrir RÚV, ekki gjöf til gjalda. Hér styður efnamaður við bakið á menningarstarfi, reglur eru og eiga að vera skýrar í þessu efni en þjóðin öll mun njóta þessa framtaks og það mun hafa áhrif í þessu landi. Það hefur verið siður í gegnum tíðina þegar við skoðum söguna, auðug fyrirtæki og efnamenn hafa komið að ýmsu með byggðunum, með fyrirtækjunum, með þjóðinni. Þeir eiga að gera það ríkisvaldinu, með sveitarfélögunum, með íþrótta- og æskulýðsfélögunum en ég tek fram að auðvitað þurfa reglurnar að vera skýrar, að þeir kaupi sér ekki á neinn hátt rétt eða forgang eða áhrif. Við framsóknarmenn teljum að Ríkisútvarpið eigi að vera í eigu þjóðarinnar og hafa burði og afl til að sýna menningarefni og keppa á þessum markaði við hina frjálsu fjölmiðla landsins.