135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

staða kjarasamninga sjómanna á smábátum.

238. mál
[18:11]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir að ástandið er afar sérstakt og slæmt. Auðvitað er erfitt að búa við að ekki skuli vera í gildi kjarasamningur sem kveður á um lágmarksréttindi að því er varðar sjómenn á smábátum. Það er auðvitað slæmt, eins og hv. fyrirspyrjandi lýsti, að geðþóttaákvarðanir séu þar allsráðandi.

Vinnulöggjöfin gerir almennt ráð fyrir frjálsum samningum milli aðila og að ekki sé um inngrip stjórnvalda að ræða. Eins og ég kom að í máli mínu var það niðurstaða Alþjóðavinnumálastofnunar að ef stjórnvöld gripu inn í kjaradeilur á milli sjómanna og útgerðarmanna væri það brot á samþykktum stofnunarinnar.

Ég tel rétt, eins og staða málsins er núna, að við förum yfir réttarstöðu þessara aðila og þá vinnulöggjöfina í heild sinni og aðra réttarstöðu sem lýtur að aðbúnaði sjómanna á smábátum. Ég er fús til þess og mun beita mér fyrir að við höldum slíkan fund og förum yfir málin. Það geri ég í samráði við sjávarútvegsráðherra svo hann komi einnig að málinu og eins hagsmunaaðilar, þannig að menn fái úr því skorið hvort einhver minnsti vafi leiki á því að verið sé að brjóta vinnumálalöggjöfina. Eins og hv. þingmenn þekkja er meginreglan í vinnulöggjöfinni sú að frjálsir samningar eru á milli aðila en ekki er um inngrip stjórnvalda að ræða.