135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

kristilegt siðgæði í starfsháttum grunnskóla.

240. mál
[18:46]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Auður Lilja Erlingsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég lagði fyrir nokkru fram fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra sem snýst um 2. gr. laga um grunnskólana. Greinin hljóðar m.a. svo í núverandi löggjöf, með leyfi forseta:

„Hlutverk grunnskólans, í samvinnu við heimilin, er að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun. Starfshættir skólans skulu því mótast af umburðarlyndi, kristilegu siðgæði og lýðræðislegu samstarfi.“

Fyrirspurn mín beinist sérstaklega að því að starfshættir skuli mótast af kristilegu siðgæði, enda tel ég furðu sæta að tiltaka þurfi sérstaklega kristilegt siðgæði í lögum um grunnskóla.

Fyrirspurnin hljóðar því svo:

Hvað er átt við með orðunum kristilegt siðgæði? Þá er ég e.t.v. að leita eftir skilgreiningu, af hverju þarf að tiltaka kristilegt siðgæði, er ekki hægt að orða það á annan máta?

Er kristið siðgæði að mati ráðherra eitthvað frábrugðið almennu siðgæði, eins og því sem trúlausir ástunda eða fólk sem aðhyllist önnur trúarbrögð?

Sömuleiðis spyr ég hver sé ástæða þess að talið er nauðsynlegt að tiltaka ein trúarbrögð og siðgæði þeim tengt umfram önnur trúarbrögð eða trúleysi í þessum lögum. Mig langar að heyra sjónarmið hæstv. menntamálaráðherra hvað það varðar.

Jafnframt velti ég því upp hvort hæstv. menntamálaráðherra telji það fara saman að leggja áherslu á kristilegt siðgæði í starfsháttum grunnskóla og að námsefni í grunnskólum sé borið fram á hlutlausan, gagnrýninn og fjölmenningarlegan máta. Það er að mínu mati það sem við ættum að stefna að hvað varðar starfshætti í grunnskólum landsins.

Eins og gjarnan er sagt er ein vika — næstum tvær síðan ég lagði fram þessa fyrirspurn — langur tími í stjórnmálum og í dag var dreift frumvarpi hæstv. menntamálaráðherra um breytingar á lögum um grunnskóla þar sem m.a. er tekinn út sá hluti 2. gr. laganna sem segir að starfshættir skólanna skuli mótast af kristilegu siðgæði. Þó að ég hafi ekki náð að kynna mér aðra þætti frumvarpsins enn þá tel ég að þetta sé mikil framför og að með því að taka þetta út hafi hæstv. menntamálaráðherra e.t.v. óbeint svarað fyrirspurn minni án þess að ég hafi verið búin að bera hana upp munnlega. Breytingar á lögunum hafa þó ekki verið samþykktar enn þá og því þætti mér mjög áhugavert að heyra sjónarmið hæstv. ráðherra hvað þetta varðar. Hæstv. menntamálaráðherra getur e.t.v. svarað hví hún tók greinina út.