135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[23:39]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þær tæknilegu hindranir sem ég var að tala um að þyrfti að yfirvinna eru flatarmálið. Það tekur tíma að fara yfir stórt svæði, það er ætlast til þess og þingmönnum ber skylda til þess að fara um kjördæmi sitt, hitta fólk, kynna sér aðstæður til þess að geta staðið sig sem þingmenn. Það er vissulega rétt að þingmenn eru hér fyrir fólk og kosnir af fólki og þess vegna er algerlega nauðsynlegt fyrir þingmenn að hitta það fólk sem kýs þá til starfa.

Ég hvet hv. þm. Jón Magnússon til að ræða þessi mál við samflokksmenn sína, þá hv. þingmenn Guðjón Arnar Kristjánsson og Kristin H. Gunnarsson. Ég er sannfærð um að þegar þeir verða búnir að ræða þau mál til hlítar í þeim samstæða og góða þingflokki sem þingflokkur Frjálslyndra er muni hv. þm. Jón Magnússon hafa fullkominn skilning á því við hvaða aðstæður þingmenn á landsbyggðinni búa. Reyndar hvet ég hann einnig til þess að fara dálítið til fundarhalda úti á landi til að hitta fólk sem býr við aðrar aðstæður en fólk gerir hér í 101 Reykjavík þar sem hv. þingmaður er fæddur og uppalinn og hefur alið sinn aldur. Hann hefur mjög góðan skilning á stöðu fólks í kjördæminu en það er jafnframt algerlega nauðsynlegt fyrir hann, af því að hann segist vera þingmaður allra landsmanna, að kynna sér aðstæður fólks úti um land. Þar eru aðstæður að sumu leyti aðrar en í nágrenni við þinghúsið þar sem við höfum góða starfsaðstöðu, eins og hann nefndi, og gott fólk til að aðstoða okkur.