135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

sala eigna á Keflavíkurflugvelli.

[14:31]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Það er mjög einkennilegt að hlýða á þá umræðu sem hér fer fram, fyrst um störf þingsins sem greinist svo í einhver tvö meginmál og í framhaldi af því, þegar mönnum þykir það ekki útrætt, taka þeir upp umræðu um annað málið undir liðnum um fundarstjórn forseta. Forseti á samúð mína skilið við að stýra umræðunni eins og hún hefur þróast en oft er erfitt fyrir nýliða á þingi að átta sig á með hvaða hætti hlutir ganga hér fram.

Sem varaformaður fjárlaganefndar upplýsi ég að við höfum átt fundi með Ríkisendurskoðun og ég bið hv. þingmenn að íhuga að sú stofnun er löggiltur endurskoðandi Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar. Við höfum í tvígang, formaður og varaformaður, hitt fulltrúa frá Ríkisendurskoðun ásamt formanni efnahags- og skattanefndar og farið yfir stöðu mála. Síðast í morgun fékk fjárlaganefnd fulltrúa frá Ríkisendurskoðun til fundar og átti við hann góð skoðanaskipti. Ríkisendurskoðun er með ákveðin gögn undir höndum sem lúta að kaupsamningum og kauptilboðum sem hún hefur metið sem svo á þessu stigi málsins að ekki eigi erindi í opinbera umræðu en hefur boðið þingmönnum að kynna sér þau gögn. Það boð stendur og er verið að reyna að koma þeim fundum á.

Í annan stað (Gripið fram í.) vil ég nefna, hv. þm. Atli Gíslason, þau gögn (Gripið fram í.) — við skulum halda umræðunni á málefnalegri grunni en hingað til hefur verið gert af hv. þm. Atla Gíslasyni. Hér ætla ég að upplýsa um þau gögn sem fjárlaganefnd hefur fengið í hendur. Það er svar frá fjármálaráðuneytinu, það er samningur um þróun og umsjón með ráðstöfun eigna á þróunarsvæðinu, það er kostnaðargreining, það er greinargerð vegna funda með efnahags- og skattanefnd sem Kadeco leggur fram, það er áætlun árið 2007, rekstraráætlun, fjárhagsáætlun og söluáætlun, það er rekstrar- og greiðsluáætlun fyrir árin 2007–2010, það er árshlutareikningur Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar fyrir 1. janúar til 30. september 2007, það er ársreikningur ársins 2006 og það er listi yfir húsnæði og byggingar á skilgreindu svæði Háskólavalla. Þetta eru þau gögn sem við höfum haft undir höndum, önnur gögn eru í vörslu Ríkisendurskoðunar og ég treysti henni fullkomlega fyrir því að fara með þau eins og best gerist.