135. löggjafarþing — 47. fundur,  15. jan. 2008.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[15:39]
Hlusta

Frsm. fél.- og trn. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir kemur réttilega inn á að meginverkefni jafnréttislaga og það sem skipti mestu máli er samþætting kynjasjónarmiðanna. Við í nefndinni reyndum einfaldlega að draga fram þau álit sem komu, vinna úr þeim og leitast við að búa til lagaumhverfi þar sem bæði atvinnurekendur, launþegar, bæði karlar og konur, gætu sameiginlega unnið að markmiðum. Að því beinast breytingarnar í þessari lotu. Ef hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir les umsagnirnar og skoðar athugasemdir við frumvarpið þá skýrist kannski betur af hverju breytingarnar voru gerðar.

Þetta lýtur að ákvæðum varðandi framkvæmdaáætlunina, af því að við erum að fjalla um smæstu fyrirtæki sem þau stærstu. Það er rétt sem hv. þingmaður nefndi að nokkur fyrirtæki hafa gert jafnréttisáætlanir, sem er til fyrirmyndar, en það eru einmitt hin stóru opinberu fyrirtæki eða hálfopinberu fyrirtæki. Það sem við höfum áhuga á er að tryggja að litlu fyrirtækin, þessi einkareknu geti unnið með svipuðum hætti að jafnréttisáætlunum en það verði ekki um of íþyngjandi í stjórnskipan þeirra eða í þeirra vinnu vegna þess að við vitum að það er ekki öflugt skrifstofubatterí á bak við hvert lítið fyrirtæki.

Varðandi skipun Jafnréttisráðs þá er ástæða til að ítreka að þar er verið að breyta hlutverki ráðsins töluvert. Það starfar í nánu samstarfi við Jafnréttisstofu en sá aðili sem kallaður er til til þess að fá fram sem flesta aðila í umræðu um jafnréttismál er jafnréttisþing, sem er nýtt í lögunum. Það kemur saman á tveggja ára fresti og þar koma allir aðilar að borðinu, fara yfir stöðu mála og ræða (Forseti hringir.) með hvaða hætti við stöndum að jafnréttismálunum.