135. löggjafarþing — 48. fundur,  16. jan. 2008.

störf þingsins.

[13:55]
Hlusta

Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Menn hafa farið mikinn í gagnrýni á ákvörðun setts dómsmálaráðherra, Árna Mathiesens, við skipan héraðsdómara. Stór orð hafa fallið, bæði á síðum dagblaða og (Gripið fram í.) ekki síður í bloggheiminum. Mér finnst að menn hafi gengið allt of langt í yfirlýsingum og stóryrðum. Það liggur alveg fyrir að ráðherra hafði fulla heimild til að taka þessa ákvörðun. Viðkomandi matsnefnd og niðurstöður hennar hafa ekki bindandi gildi og ef ráðherra telur rökstuðning nefndarinnar ósannfærandi ber honum að gera það sem hann telur rétt. Í því felst ábyrgð ráðherrans.

Settur dómsmálaráðherra lýsti því yfir í Kastljósi í gær að hann teldi matsnefndina hafa gert mistök í umsögn sinni. Ætlast menn þá til að ráðherrann gangi gegn sannfæringu sinni við ákvörðun um val á skipan dómara?

Það má spyrja sig hvað átt sé við þegar kallað er eftir aukinni ábyrgð matsnefnda. Er þá lagt til að ráðherra beri ávallt að fara að niðurstöðu hennar án tillits til þess hvaða skoðanir hann hafi á rökstuðningi nefndarinnar? Er það þá nefndin sjálf sem ræður valinu en ekki ráðherrann? Í okkar stjórnsýslu ber viðkomandi ráðherra ábyrgð á ákvörðunum sínum og verksviði. Er það vilji manna að ráðherra afsali ábyrgð sinni til matsnefnda á ýmsum sviðum? Ég hef miklar efasemdir um að það sé rétt.

Ráðherra ber, og á að bera, pólitíska ábyrgð. Finnst mönnum sjálfgefið að dómarar ákveði hverjir setjast í dómarastétt? Er það endilega réttur framgangsmáti?