135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

komugjöld í heilsugæslunni.

[11:00]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Meðan þingmenn voru í jólaleyfi bárust þær fréttir að komugjöld fyrir börn og unglinga í heilbrigðiskerfinu hefðu verið felld niður og ber að fagna því. En það vekur nokkra athygli við þá niðurfellingu — sem ég fæ ekki betur séð en megi með nokkrum hætti rekja til ágætra stefnumiða Samfylkingarinnar í velferðarmálum og málefnum um barnvænt samfélag — að reikningurinn er þegar í stað sendur út og ekki er það tekið úr hinum ágæta ríkissjóði, sem hefði nú kannski haft þær 180 milljónir sem um ræðir handbærar, án þess að ég ætli að fara að mæla með því að ríkisútgjöld séu endalaust aukin. Í stað þess að taka peninginn þaðan er ákveðið að nota tækifærið til aukinnar skattheimtu á þá sem minnst mega sín. Sú leið er sem sagt farin að hækka komugjöld inn á heilbrigðisstofnanirnar um 43% þannig að þau eru nú 1.000 kr. Mér þykir það vond ráðstöfun, einkanlega vegna þess að þetta kemur verst við þá sem minnst mega sín og erfiðast eiga, eldri borgara, öryrkja og aðra slíka sem þurfa mjög að sækja heilbrigðisþjónustu.

Ég spyr hæstv. heilbrigðisráðherra hvort honum finnist eðlilegt að senda reikninginn fyrir þessu framfaramáli á eldri borgara sem hafa á sínum bestu árum þurft að borga komugjöld fyrir börn sín inn á heilbrigðisstofnanirnar en mega nú einnig borga fyrir barnabörnin sín.