135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

staða og horfur í efnahagsmálum.

[11:43]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Á fund fjárlaganefndar og efnahags- og skattanefndar komu í gær fulltrúar efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Fjölmiðlar hafa fjallað um málið og mátti skilja á einum þeirra að formaður fjárlaganefndar væri að boða gengishrap, örveikingu krónunnar og að bandaríkjadalur ætti að vera kominn upp í rúmar 100 kr. fyrir hádegi. Því fer fjarri þrátt fyrir að því sé spáð að gengi krónunnar gefi lítillega eftir á næstu tveimur árum. Samsettar fréttir fjölmiðla geta á stundum komið einkennilega út.

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir orð hæstv. forsætisráðherra um efnahagsskrifstofuna. Efnahagsskrifstofan telur að við séum nú á leið inn í skeið hjaðnandi hagvaxtar eftir lok mikilla stóriðjuframkvæmda. Við höfum séð lækkun hlutabréfaverðs og vitum af því að kauptækifæri eru á markaði og hlutabréfamarkaðurinn mun aftur styrkjast að mati greiningaraðila. Það er hins vegar minna framboð af ódýru erlendu lánsfé sem mun draga úr innlendri eftirspurn. Þetta mun m.a. valda því að ójafnvægi í efnahagsmálunum mun minnka.

Hins vegar eru ýmsar kennitölur í efnahagsmálunum á ferð sem ýmsir gætu kallað sveiflu. Áætlun um afgang á tekjujöfnuði ríkissjóðs árið 2008 er lítið breytt og áfram er miðað við að Seðlabankinn fylgi aðhaldssamri peningastjórn í ár og meðalstýrivextir á árinu 2008 verði hinir sömu og á þessu ári.

Virðulegi forseti. Óvissuþættir í efnahagsspánni eru taldir vera nokkru fleiri en oft áður. Helst ber að nefna þróun á innlendum og erlendum fjármálamörkuðum, gengi krónunnar, kjarasamninga og frekari framkvæmdir. Efnahagsskrifstofan boðar nú endurrýni m.a. á skriðþunga tekjuliða en um leið er talið að forsendur fjárlaga standist þrátt fyrir ógurlega breytingu á einstökum tekjuliðum. Undir það sjónarmið tek ég.

Íslenska þjóðin (Forseti hringir.) er ekki á vonarvöl. Höldum ró okkar. Kraftur og orka er til staðar í íslensku hagkerfi, hjá íslenskri þjóð og í íslensku atvinnulífi.