135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[12:15]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta voru fróðlegar yfirlýsingar, eða eigum við að kalla það aðdróttanir, frá hæstv. utanríkisráðherra um að gagnrýni sem menn leyfa sér að koma með á hendur Atlantshafsbandalaginu, á hendur NATO og því sem það bandalag hefur tekið sér fyrir hendur á undanförnum árum, sé í nösunum á mönnum og það sé ekkert meint með því.

Ég hef ítrekað komið í umræðu um utanríkismál og gert grein fyrir afstöðu minni og okkar til hernaðarbandalagsins NATO og til þeirra breytinga sem bandalagið hefur undirgengist á undanförnum árum, sem eru verulegar og ég tel að íslensk stjórnvöld hafi ekki tekið nægilegt tillit til í umræðu um stefnumótun til framtíðar.

Staðreyndin er sú að við stofnun Atlantshafsbandalagsins var lögð áhersla á að verja aðildarþjóðirnar utanaðkomandi árás, árás á eitt ríki átti að jafngilda árás á aðrar. Síðan hafa orðið áherslubreytingar, á síðari hluta tíunda áratugarins og stimplað inn í samþykktum á afmælisfundi NATO í Washington árið 1999 og síðan nokkrum árum síðar í Prag. Þar er áherslan í þá átt að túlka eða breyta skilgreiningum um árás í átt til ógnar. Ógn gagnvart einu ríki ógnar öðrum. Samhliða þessu eru gerðar skipulagsbreytingar innan hernaðarkerfis NATO sem lúta m.a. að færanlegum herafla.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, ég hef margoft haldið því fram á Alþingi, teljum að okkur stafi meiri ógn af því að vera innan þessa bandalags en utan þess. Hvers vegna? Jú, ef sá sem stýrir för, sem er óneitanlega sterkasta herveldið innan NATO, er árásagjarnt og ranglátt í samskiptum sínum við þjóðir víðs vegar um heiminn er líklegt að einmitt því ríki verði ógnað. Ef við skuldbindum okkur til samstöðu innan hernaðarbandalagsins NATO með slíku ríki og til að mæta slíkri ógn þá stefnum við öryggi Íslands í hættu.

Hvað skyldi koma fram í greinargerð með þessu frumvarpi? Jú, okkur er sagt og það er bundið í þessi lög, að á friðartímum eigi Bandaríkjamenn ekki að sinna loftvörnum á Íslandi, bara á ófriðartímum. En það er ein undantekning, þ.e. ógnir sem stafa af öðru en hefðbundnum hernaði. Hvaða ógnir eru það? Það er hryðjuverkaógnin. Þar erum við áfram undirseld samstarfi við Bandaríkin.

Þetta eru málefnaleg rök sem við höfum fært fram gegn því að við bindumst fastari böndum við þetta hernaðarbandalag. Við þeim höfum við aldrei fengið nein svör önnur en ónot um að þetta sé nöldur eða eitthvað í nösunum á fólki. Ég óska eftir því að hæstv. utanríkisráðherra komi inn í þessa umræðu á málefnalegri hátt en hún gerði áðan og ræði þá gagnrýni sem við höfum haft fram að færa.

Hitt er síðan rétt að það er mikilvægt og nauðsynlegt að taka skipulega á hinum stofnanalega þætti, hvernig við komum að þessum málum. Þar hefur vissulega verið uppi ágreiningur um hvort stefna beri skipulaginu inn í dómsmálaráðuneytið annars vegar, inn í borgaralegan farveg, eða í hernaðarlegan farveg undir verndarvæng utanríkisráðuneytisins.

Síðan er að vísu á hitt að líta að sá sem stýrir för í dómsmálaráðuneytinu hefur viljað hyggja að hinum hernaðarlegu varnarþáttum einnig. Ég hygg því að ríkisstjórnin sé samstiga hvað það snertir að tryggja og efla samstarf við hernaðarbandalagið NATO. Um þetta hefur verið ágreiningur innan ríkisstjórnarinnar, inn í hvaða farveg eigi að fara. Við fyrir okkar leyti höfum iðulega haldið því fram í þessum sal að við eigum að stefna allri þeirri vinnu sem lýtur að öryggi þjóðarinnar inn í borgaralegan farveg. Einnig hvað snertir Ratsjárstofnun, hún á að sinna því sem lýtur að flugöryggismálum. En að við eigum að höggva á þessi nánu tengsl við hernaðarbandalagið NATO.

Undir það vil ég engu að síður taka með hæstv. utanríkisráðherra að þarna er verið að skapa stofnanalega umgjörð utan um þessa þætti. Það er nokkuð sem við eigum eftir að taka síðan til umræðu á komandi vikum í nefndum þingsins sem um þessi mál koma til með að fjalla.

Það eru iðulega uppi mótsagnir á milli markmiða annars vegar og gjörða hins vegar. Það segir ítrekað í þessu frumvarpi og í greinargerð með því að Ísland sé og eigi að vera herlaust land. Því fagna ég að sjálfsögðu. Þær áherslur eru vissulega að okkar skapi. En sú spurning hefur oft vaknað í mínum huga hversu stórmannleg þessi afstaða sé hjá þjóð sem tekur skuldbindandi ákvarðanir með hernaðarumsvifum NATO en vill síðan fría sig allra mála með því að segja: Við sendum ekki okkar fólk á vettvang. Við ætlum ekki að hafa her en við samþykkjum að senda ungmennin frá Bretlandi og Bandaríkjunum og öðrum þjóðum en ætlum að vera frí sjálf.

Í mínum huga hangir þetta allt í einni spyrðu, aðildin að hernaðarsamvinnu og viðhorfin til hers og hermála. Þetta er samhangandi. Mér hefur aldrei fundist þetta sérstaklega stórmannlegt. Mér hefur aldrei fundist þetta vera stórmannaleg afstaða. Í þessu frumvarpi er vissulega rætt um og lögð á það áhersla að Ísland eigi að vera herlaus þjóð, en síðan lögbundin og geirnegld inn í faðmlagið við NATO.

Mér gefst ekki tími til að fara ítarlega í frumvarpið við þessa umræðu. Okkur er það naumt skammtaður tíminn þótt að ég taki fram að þetta er óbreyttur tími frá fyrri þingskapalögum. Það er orðið svolítið skondið og fyndið að heyra menn stöðugt mæra þessi nýju þingskapalög sem ekki er farið að reyna á — það hefur aldrei reynt á þessi nýju lög og allra síst þau ákvæði þeirra sem voru umdeild.

Ef við staðnæmumst aðeins við 3. gr. frumvarpsins, af því að hæstv. utanríkisráðherra vék sérstaklega að henni, gott ef það var ekki í andsvari við mig eða í inngangsræðu hennar, þar sem talað er um stefnumótun. Þar segir að utanríkisráðherra beri ábyrgð á mótun og framkvæmd öryggis- og varnarstefnu Íslands á alþjóðavettvangi. Nú er þetta lagatæknilegt mál náttúrlega og auðvitað er Alþingi ábyrgt fyrir gjörðum utanríkisráðherra. Ráðherra þarf að sækja umboð sitt til þingsins og styðjast við þann meiri hluta sem þar ríkir. Samkvæmt mínum skilningi hefði áherslan átt að vera sú að mótun stefnunnar eigi að vera í sal Alþingis og á vettvangi þingsins en hins vegar sé framkvæmd þeirrar stefnu á ábyrgð ráðherrans. Þetta er nokkuð sem ég staðnæmist við í fyrstu yfirferð.

Síðan eru allar þessar skilgreiningar um íslenska loftvarnakerfið, sem á náttúrlega að lesa sem loftavarnakerfi NATO. Þá eru ákvæði um Varnarmálastofnun og rekstur þessa kerfis. Einu vildi ég gjarnan fá svör við. Talað er um ráðningar til varnarmálaskrifstofu til fimm ára í senn, að þar eigi að vera maður með háskólapróf — þetta er einhver ný tíska sem ruddi sér til rúms hér í þinginu fyrir nokkrum árum að allir sem yrðu ráðnir til mannaforráða hjá ríkinu þyrftu að hafa háskólapróf og gilti þá einu hvort það væri í dönsku, forngrísku eða verkfræði eða hvað það var en reynslan sett til hliðar — hér er þó sagt að viðkomandi skuli hafa sérstaka þekkingu á verksviði stofnunarinnar, eins og segir í greininni. Nú spyr ég: Hver er þessi sérþekking? Er þetta sérþekking á sviði hermála eða er þetta einhver sem nýtur sérstaks velvilja hjá NATO því að það er náttúrlega eitt sem þarf að gera, allir þeir sem ráðnir verða að þessari stofnun þurfa að hafa fengið sérstakan stimpil frá Atlantshafsbandalaginu, frá NATO, um að þeir megi starfa á þessu sviði. (Gripið fram í.)

Síðan eru ákvæði um þagnarskyldu og annað af því tagi, að menn skuli sæta fimm ára fangelsi ef þeir fari út fyrir ramma. Við eigum eftir að skoða þessi mál eins og ég sagði áður og þá einnig heimildir til heræfinga á Íslandi. Við þurfum að fá umræðu um þetta. Hver er andmælaréttur á Íslandi gagnvart heimildum sem veittar eru? Ég vísa til sveitarfélaga, til landeigenda, til sumarbústaðaeigenda og til almennings almennt. Hvar er andmælarétturinn gagnvart Atlantshafsbandalaginu og kröfum þess um heræfingar? Eins og hér kemur fram þá er veittur aðgangur að Íslandi til heræfinga fyrir þessi herveldi samkvæmt því mati sem þau koma til með að leggja á þau mál.

Ég ætla ekki, hæstv. forseti, að hafa fleiri orð um þetta að sinni enda tími minn á þrotum. Ég ítreka að við eigum eftir að taka þessi mál til rækilegrar skoðunar. Það munum við vissulega gera í mínum flokki. Við munum efna til umræðu um þessi mál og kalla aðila til skoðunar. Það er sorglegt til þess að hugsa að ríkisstjórnin, þá sérstaklega hæstv. utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, hét kjósendum því að áður en plagg af þessu tagi yrði lagt fram — eða það var minn skilningur — yrði efnt til raunverulegrar umræðu um grundvöll öryggismálastefnu okkar. Það bólar ekkert á slíkri umræðu.

Aðeins, af því að ég á nokkrar sekúndur eftir, af því tilefni að hæstv. ráðherra sagði að ég gæti hvenær sem er blandað mér í slíka umræðu í þessum sal eða annars staðar, þá var það svo að á fundi sem margauglýstur var í Háskóla Íslands og sóttur af bæði hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra að ég beindi markvissum spurningum til beggja þessara ráðherra með þeim afleiðingum að hæstv. forsætisráðherra hljóp á dyr. Hæstv. utanríkisráðherra svaraði mér en þó aðeins að hluta og að engu leyti um undirstöðuþættina, samskipti okkar við hernaðarveldið NATO.