135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[14:57]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til varnarmálalaga sem er afskaplega mikilvægt og hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir hefur að miklu leyti komið inn á það sem ég ætlaði að fjalla um en það er ákvæði 21. gr. sem fjallar um skattfrelsi. Hún kom inn á það sem ég get alveg tekið undir að það er óeðlilegt að geta um það í lögum að einhver önnur lög gildi og það er óeðlilegt að árétta í lögum að einhverjir samningar og annað slíkt gildi. Ég held því að 21. gr. megi alveg missa sín, eins og hún leggur sig. 1. mgr. mætti hugsanlega standa en þar er eiginlega talað um það að mannvirki varnarsvæðis sem íslenska ríkið á og hefur forsjá yfir skuli vera skattfrjálst þannig að peningarnir fara í hring ef því væri að skipta.

Ég ætla hins vegar að nota tækifærið og tala um annað og það er skattfrelsi alþjóðastofnana sem hér hefur verið áréttað. Frá Vínarfundinum 1812 hefur verið regla að sendimenn og aðrir slíkir njóti skattfrelsis. Hugsunin á bak við það er sú að gistilandið eða það land sem menn gista, geti ekki refsað þeim með því að skattleggja þá. Þetta er náttúrlega löngu liðin tíð og löngu orðið úrelt og brýtur allar kenningar um jafnrétti og jafnræði fyrir lögum o.s.frv. Ég hef verið baráttumaður fyrir því að afnema skattfrelsið, t.d. skattfrelsi forseta Íslands og ég hef lagt til að sjómannaafsláttur, sem líka er hluti af skattfrelsi ákveðinna stétta, væri aflagður en eftir stendur skattfrelsi sendimanna sem er mjög undarlegt. Það er mjög undarlegt að þeir borga ekki virðisaukaskatt, þeir borga ekki vörugjald á bensín og olíur og þeir borga ekki tekjuskatt. Í mínum huga brýtur þetta allar reglur okkar og hefðir um jafnræði, að menn séu jafnir fyrir lögum. Ég skora því á hæstv. utanríkisráðherra að berjast fyrir því á alþjóðavettvangi að þessari ósvinnu sé hætt. Þetta skekkir líka mikið samanburð á launum og kostnaði alþjóðastofnana. Til dæmis spurðist ég fyrir um það hjá ÖSE-þinginu hvaða laun starfsmenn ÖSE-þingsins væru með. Þá kom í ljós að yfirmennirnir í Kaupmannahöfn voru með ágætislaun og þegar ég spurði um skattfrelsi kom í ljós að annar þeirra var skattfrjáls en hinn ekki. Samt voru þeir með sambærileg laun sem þýddi náttúrlega að annar var miklu betur settur af því að hann borgaði enga skatta.

Það eru líka til í Evrópu sérverslanir fyrir diplómata þar sem allt er skattfrjálst, alveg frá hveitinu og mjölinu og upp í dýrari vörur, t.d. sófa, bíla og annað. Þetta er náttúrlega mjög óeðlilegt, frú forseti. Ég held að hæstv. utanríkisráðherra sem er jafnréttissinni og vill hafa jafnræði meðal þegnanna ætti að berjast fyrir því á alþjóðavettvangi að þetta ákvæði sem einhverjir aðalsmenn og slíkir náðu samkomulagi um 1812 verði loksins fært til nútímans.

Það eru dálítið skrýtin ákvæði í niðurstöðu fjármálaráðuneytisins á kostnaði. Þar segir, með leyfi frú forseta:

„Ekki er gert ráð fyrir að stofnunin muni eiga neinar eignir.“ Dálítið neðar segir svo: „Undanskilinn í kostnaðaráætluninni er hins vegar stofnkostnaður vegna yfirfærslna eigna Bandaríkjamanna til stofnunarinnar sem er u.þ.b. 360 millj. kr.“

Þetta er bara mótsögn í sömu umsögninni og síðan segir:

„… Varnarmálastofnun annast, fyrir hönd þjóðréttaraðila sem njóta skatt- og tollundanþága, eins og t.d. Atlantshafsbandalagið, fari eftir þeim sérreglum sem um slíka þjóðréttaraðila gilda. Gera verður þann fyrirvara að Varnarmálastofnun mun ekki njóta skattundanþágu með sama hætti og Ratsjárstofnun þótt hún annist rekstur fyrir aðila sem njóta slíkrar skattundanþágu.“

Ég tel að hv. utanríkismálanefnd sem fær þetta mál til umsagnar ætti að kveða skýrar á um þetta þannig að í umsögn fjármálaráðuneytisins sé ekki verið að gera ráð fyrir hinu og þessu heldur standi það í lögunum þannig að það sé alveg skýrt hverjir borgi skatt og hverjir borgi ekki skatt.

Þetta er það sem ég vildi koma að um frumvarp um varnarmálalög og ég skora á hæstv. utanríkisráðherra að berjast fyrir því á alþjóðavettvangi að jafnræði gildi á milli þegna þessa heims að þessu leyti.