135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[15:26]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hér sé alls ekki um að ræða val, annaðhvort eða. Það væri mikið áfall fyrir löggæslu á Íslandi ef það yrði ekki lengur fylgst með umferð ómerktra flugvéla um landið og ég held að að þessu leyti fari vel saman hagsmunir innra öryggis og ytra öryggis.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan að það sem vekur athygli mína eru þau hringrök sem þingmaðurinn færir fram. Það er ólíku saman að jafna málflutningi þingmannsins og afar skynsamlegri ræðu hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar hérna áðan, sem nálgaðist þetta mál af miklu vitlegri sýn. Ef vinstri grænir meina það sem ég held nú stundum að sé mestmegnis í nösunum á þeim, (Gripið fram í.) þ.e. að þeir vilji losa Ísland úr Atlantshafsbandalaginu, þá hlýtur það að vera mjög mikilvægt að allt það starf sem lýtur að verkefnum sem tengjast aðild að Atlantshafsbandalaginu sé innan einnar stofnunar. Það væri þá einfalt fyrir vinstri græna ef þeir reynast einhvern tímann hafa raunverulegan áhuga á að ganga úr Atlantshafsbandalaginu, að leggja þá stofnun niður.

Ég held að það sé mjög mikilvægt markmið. Ég tók eftir því að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson tók undir það að það er mjög mikilvægt að marka þessari starfsemi mjög skýran ramma og skýra umgjörð þannig að hún lúti lýðræðislegu eftirliti og sé gagnsæ.

Það er grundvallaratriðið sem þetta mál snýst um. Orðaleppar þingmannsins um hervæðingu og hermálastofnun og önnur slík ummæli sem fyrst og fremst miðuðu að því að vekja tortryggni sem er algjörlega ástæðulaus eiga ekkert erindi í þessu samhengi.