135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

samvinna um öryggis- og björgunarmál milli Vestur-Norðurlandanna.

274. mál
[17:17]
Hlusta

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekkert land í heiminum sem býr við eins öflugar og fjölþættar björgunarsveitir og Ísland og dreifðar um landið, ekkert land í heiminum kemst í hálfkvisti við það og þetta kerfi hefur reynst okkur vel. Það er hins vegar margt sem má ugglaust fara betur hjá nágrönnum okkar, ekki síst á Grænlandi og ég vil taka undir það sem hér hefur verið sagt að öðru leyti en því sem kom fram hjá síðasta hv. ræðumanni en ég tel að við eigum ekki að blanda Norðmönnum sérstaklega inn í þá vinnu sem við erum að vinna vegna þess að þá ættum við alveg eins að teygja okkur til Skotlands, Hjaltlandseyja og fleiri landa í þeim kanti sem við erum að vinna með. Við eigum að rækta garðinn innan Vestnorræna ráðsins fyrst og fremst, þétta raðirnar þar. Það er ekkert launungarmál að Norðmenn hafa sótt fast að komast inn í Vestnorræna ráðið og hefja starf þar en að mínu mati er hyggilegast að þétta raðirnar innan Vestnorræna ráðsins sjálfs, þeirra þriggja landa sem um ræðir. Ég hygg að það sé farsælast og að við getum skilað og náð mestum árangri með því móti.