135. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

272. mál
[16:13]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég rakti í framsöguræðu minni áðan eru miklar vonir bundnar við þessa nýju atvinnugrein og stjórnvöld hafa fylgst með uppbyggingu hennar og reynt að koma til móts við þarfir greinarinnar.

Ein forsenda fyrir því að þessi atvinnugrein geti dafnað og lifað er sú að menn geti m.a. búið sér til viðbótartekjur með því að selja þann afla sem ferðamenn, sem kjósa að kaupa sér þessa þjónustu, draga að landi. Til þess að það sé hægt verðum við að skilgreina þessar veiðar sem veiðar í atvinnuskyni. Þetta eru auðvitað ekki tómstundaveiðar í þeim skilningi sem við höfum lagt í það hugtak. Við erum að byggja upp nýjan atvinnurekstur eins og hv. þingmaður sagði og með þessu frumvarpi er fyrst og fremst verið að opna þessari nýju atvinnugrein leið til að geta aukið tekjur sínar með því að selja aflann og fénýta hann með þessum hætti.

Ég veit ekki hvort hv. þingmaður á við það að taka eigi þessa atvinnugrein eina úr í sambandi við íslenskan sjávarútveg, að taka eigi þessa atvinnugrein, sem kannski fyrst og fremst útlendingar stunda, og gefa henni sérstakt færi á að fiska hér við land og selja aflann og fá tekjur án þess að hún lúti að öðru leyti þeim reglum sem í gildi eru um fiskveiðar á Íslandi. Ég trúi ekki að hv. þingmaður meini þetta. Ég held að hv. þingmaður hljóti að vera á einhverjum villigötum og sé ekki búinn að átta sig á málinu. Við höfum reynt að vinna þessi mál í góðri samvinnu við þá sem koma að þessari atvinnugrein og ég held að öllum sé ljóst að það er mikilvægt fyrir greinina að reglurnar um það hvernig hún á að starfa séu ljósar strax frá upphafi.

Margt bendir til þess að það geti orðið verulegur vaxtarbroddur í þessari grein og vonandi tekst svo vel til að hingað til lands komi margir ferðamenn sem sjái sér hag í því að kaupa þessa þjónustu og róa til fiskjar. Við vitum að það hefur fiskast vel á grunnslóðinni. Menn hafa verið að fá töluverðan afla og það er mikilvægt að þeir geti fénýtt aflann og þar með er þetta orðin atvinnubundin starfsemi. Þetta eru ekki tómstundaveiðar í þeim skilningi (Forseti hringir.) sem ég og hv. þingmaður hljótum báðir að leggja í það hugtak.