135. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

272. mál
[17:16]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Mismunun og ekki mismunun. Það er nú dálítið skondið þegar hv. þm. Herdís Þórðardóttir talar um trillukarl sem þarf að leigja sér kvóta, hvort sem hann fékk úthlutað kvóta í upphafi eða þurfti að leigja sér kvóta eða kaupa kvóta, að verið sé að mismuna honum gagnvart einhverjum sem er að fara að veiða á sjóstöng. Vissulega er það alveg flötur á því og það er hugsanlegt að svo sé.

En hver var mismununin 1984 þegar ákveðið var að tiltekinn hópur manna, sem hafði verið í útgerð á bilinu 1980–1983, fékk úthlutað kvóta, gat leigt hann eða selt að geðþótta, fénýtt hann eða veðsett? Þar var mismunun og það er það sem mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna er að tala um sem mismunun.

Að tala svo svona eins og þarna liggi stóra mismununin, að sjóstangaveiðibátur sem fer á sjó hafi forskot fram yfir hugsanlega einhvern trillukarl sem þarf að leigja sér viðbótarkvóta eða hefur einhvern tíma keypt kvóta — það er rétt, það getur auðvitað verið til í dæminu að það sé einhvers staðar mismunun í því. Þetta kerfi er nefnilega allt ein mismunun.

Árið 1984, þegar kvótanum var úthlutað, var framkvæmd mesta mismununin. Þar fékk séra Jón veiðiheimildir en ekki Jón. Um það snýst þetta. Þetta er mergur málsins í áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna og þann mismun þarf að leiðrétta.